Beðið eftir náðun Schwarzeneggers

Stanley Tookie Williams bíður þess að fylkisstjórinn náði hann.
Stanley Tookie Williams bíður þess að fylkisstjórinn náði hann. Reuters

Beðið er eftir viðbrögðum frá Arnold Schwarzenegger fylkisstjóra í Kaliforníu, hann hefur vald til að náða Stanley Tookie Williams, dæmdan morðingja sem verður að öðrum kosti tekinn af lífi með banvænni sprautu klukkan eina mínútu yfir átta í fyrramálið að íslenskum tíma.

Æðsti réttur Kaliforníu hefur neitað að taka málið upp að nýju en í dag verður lögð fram lokaáfrýjunarbeiðnin og náðun fylkisstjórans er hinn möguleikinn sem Williams hefur. Williams var dæmdur fyrir fjögur morð 1979.

Lögmenn Williams bíða eftir svari Schwartzeneggers um beiðni þeirra að sýna honum miskunn. Það sem þeir telja m.a. mæla með því er að Williams hefur skrifað margar barnabækur sem fordæma glæpagengjalífið og að hann hafi sýnt bót og betrun þau 24 ár sem hann hefur dvalið í San Quentin ríkisfangelsinu. Einnig þykja sannanir gegn honum ekki hafa verið reistar á traustum grunni. Lögmenn Williams segja að vitni hafi verið ótrúverðug og tæknileg rannsókn á morðvopninu mun hafa verið ábótavant.

Schwarzenegger hefur tvisvar neitað dauðadæmdum föngum um náðun síðan hann náði kjöri en í síðustu viku sagðist hann eiga erfitt með ákvörðunina í tilfelli Williams. Það var Ronald Reagan sem síðastur fylkisstjóra í Kaliforníu sem veitti dauðadæmdum fanga náðun, það var árið 1967 og fanginn var sjúkur á geði.

Williams sem er 51 árs neitar að hafa framið morðin. Hann er sagður hafa rænt verslun og myrt afgreiðslumann og sömuleiðis rænt og myrt móteleiganda og fjölskyldu hans í Los Angeles. Williams hefur ekki játað á sig þessi morð, en hann hefur beðist afsökunar á því að hafa tekið þátt í að stofna Cripps-gengið sem talið er að standi að þúsunda morða sem framin hafa verið í Los Angeles og víðar síðan það var stofnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert