Ritstjóri í Jórdaníu handtekinn fyrir að birta skopmyndirnar umdeildu

Múslímar eru afar ósáttir við þær skopmyndir sem æ fleiri …
Múslímar eru afar ósáttir við þær skopmyndir sem æ fleiri fjölmiðlar hafa tekið að sér að birta víða um heim. Hér sjást heittrúaðir múslímar í Írak ráðast á brúðu sem á að tákna danskan ríkisborgara. AP

Ritstjóri dagblaðs í Jórdaníu hefur verið handtekinn fyrir að birta skopmyndirnar af Múhameð spámanni. Ritstjórinn, Jihad Momani, er sakaður um að brjóta fjölmiðlalög með því að móðga trúarbrögð manna.

Dagblaðið hafði rekið hann eftir að hann ákvað að endurskapa skopmyndirnar, sem birtust upphaflega í Jótlandspóstinum og hafa vakið mikla úlfúð meðal múslíma um allan heim.

Á sumum myndunum er Múhameð teiknaður sem hryðjuverkamaður. Samkvæmt íslömskum hefðum er sérhver myndbirting á spámanninum bönnuð.

Momani var handtekinn degi eftir að Abdullah konungur Jórdaníu fordæmdi skopmyndirnar sem óþarfa misnotkun á tjáningarfrelsinu.

Umrætt dagblað, Shihan, hafði birt þrjár af skopmyndunum auk leiðara þar sem velt vöngum var yfir því hvort að þau gríðar sterku viðbrögð, sem hafa orðið hjá múslímum, ættu í raun rétt á sér.

Momani skrifaði: „Múslímar verið skynsamir.“

„Hvort býður upp á meiri fordóma gagnvart Íslamstrú, skopmyndirnar eða myndir af mannræningja skera fórnarlamb sitt á háls fyrir framan myndavélar eða sjálfsmorðssprengjumaður sem sprengir sjálfan sig í loft upp í brúðkaupi í Amman?“

Fréttavefur BBC greindi frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert