Da Matta í lífshættu eftir ákeyrslu á dádýr á kappakstursbraut

Cristiano da Matta ræðir við blaðamenn í bílsmiðju Toyota í …
Cristiano da Matta ræðir við blaðamenn í bílsmiðju Toyota í Köln. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Cristiano da Matta, sem ók á sínum tíma fyrir Toyota í formúlu-1, er í lífshættu á bandarísku sjúkrahúsi eftir árekstur við dádýr við bílprófanir á Road America-brautinni við Elkhart Lake í Wisconsinríki í Bandaríkjunum.

Da Matta hlaut höfuðmeiðsl við áreksturinn við dádýrið sem komist hafði inn á brautina úr skóglendi sem hún liggur meðfram. Atvikið átti sér stað milli fimmtu og sjöttu beygju og sjónarvottar segja að dýrið hafi orðið fyrir hægra framhjóli ChampCar-bílsins.

Tókst það á loft og skall skrokkurinn á höfði Da Matta en bíll hans skall að lokum á dekkjavegg við sjöttu beygju. Sjúkraflutningamenn komu á vettvang á augabragði og var Da Matta flogið með þyrlu á Theda Clark-spítalann í nágrannabænum Neenah þar sem hann gekkst undir bráðaaðgerð.

Da Matta var meðvitundarlaus er hann náðist út úr bílflakinu. Við skoðun við komuna á sjúkrahúsið sýndi heilarit að hann væri með svokallaðan innanbastsmargúll, eða blóðkökk í heila, og var hann fjarlægður með neyðaraðgerð. Læknar hafa ekki skýrt frá því hvort hann kunni hugsanlega bíða varanlegan skaða af óhappinu.

Da Matta, sem er 32 ára, er fyrrverandi meistari í bandaríska ChampCar-kappakstrinum. Sem slíkur gekk hann til liðs við Toyota og keppti í formúlunni 2003 og 2004. Hann hóf keppnistímabilið í ár með Dale Coyne Racing-liðinu en gekk fyrir skömmu til liðs við Rusport. Þar er liðsfélagi hans annar ökuþór sem nýverið keppti í formúlu-1, Englendingurinn Justin Wilson.

Cristiano da Matta situr á framdekki 2004-bílsins á frumsýningu hans …
Cristiano da Matta situr á framdekki 2004-bílsins á frumsýningu hans í bílsmiðju Toyota í Köln. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Cristiano da Matta við 2004-bílinn á frumsýningu hans í bílsmiðju …
Cristiano da Matta við 2004-bílinn á frumsýningu hans í bílsmiðju Toyota í Köln. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert