Vonir bundnar við tyggigúmmí í baráttunni við offituvandann

Offita er mikill vandi í Bretlandi líkt og víða annarsstaðar …
Offita er mikill vandi í Bretlandi líkt og víða annarsstaðar í Evrópu. Einn af hverjum fimm fullorðnum er of feitur þar í landi. AP

Vísindamenn rannsaka nú hvort nota megi sérstakt tyggigúmmí, sem dregur úr matarlyst, í baráttunni við offitu. Hjá Imperial háskólanum í London er nú unnið að þróun lyfs sem byggir á náttúrulegum meltingarhormón sem líkir eftir þeirri líkamstilfinningu „að vera saddur“.

Talið er að hægt verði að sprauta lyfinu í fólk eftir fimm til átta ár. Langtímaverkefnið er hinsvegar að framleiða efnið með þeim hætti að fólk geti tuggið það.

Einn af hverjum fimm fullorðnum í Bretlandi eru of feitir. Talið er að hlutfallið gæti hækkað í einn af hverjum þremur fyrir árið 2010.

Umræddur hormón kallast briskirtilsfjölpeptíð (e. pancreatic polypeptid). Líkaminn framleiðir hormónið sjálfur eftir hverja máltíð svo átið fari ekki úr böndunum.

Það hafa verið færðar sönnur á það að sumt fólk hefur meira af hormóninu en aðrir, og þegar fólk fitnar dregur líkaminn úr framleiðslunni.

Í framhaldinu skapast vítahringur sem veldur því að matarlyst fólks eykst og það verður ekki lengur fært um að standast matarfreistingar. Afleiðingin eru sú að fólkið þyngist enn meira.

Frumrannsóknir hafa sýnt fram á að heilbrigðir sjálfboðaliðar geta dregið úr neyslu matar um 15-20% sé þeim gefið hormóninn í hóflegu magni.

Vísindamennirnir hafa nú fengið ríflega 300 milljóna kr. styrk frá Wellcome sjóðnum í Bretlandi til þess að halda rannsóknunum áfram.

Auk þess að setja lyfið í tyggigúmmí telja vísindamennirnir að hægt verði að koma því fyrir í nefúða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert