Bandarísk skotvopnalöggjöf gagnrýnd víða um heim

Fjöldamorðin í Virginia Tech háskólanum í Bandaríkjunum hefur leitt til þess að bandarísk skotvopnalöggjöf hefur verið gagnrýnd harðlega víða um heim. Leiðarahöfundar fjölda dagblaða fordæma hversu auðvelt er að kaupa vopn í Bandaríkjunum, og forsætisráðherra Ástralíu, sem er einn nánasti bandamaður Bandaríkjastjórnar, segir skotvopnamenninguna í Bandaríkjunum mannskæða.

Talið er að 23 ára suður-kóreskur innflytjandi hafi framið morðin, og í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti S-Kóreu segir að vonandi muni atburðirnir ekki auka á kynþáttafordóma.

Í fréttaskeyti AP segir að dómur heimsbyggðarinnar hafi verið einum rómi: Aðgengi að vopnum eykur hættuna á morðum. Hvergi er tekið undir þau sjónarmið að fleiri vopn hefðu getað bjargað mannslífum með þeim hætti að hefðu aðrir nemendur verið vopnaðir hefðu þeir getað fellt árásarmanninn.

Leiðtogar Bretlands, Þýskalands, Mexíkó, Kína, Afganistans og Frakklands gagnrýndu þó hvorki skotvopnalögin í Bandaríkjunum né George W. Bush forseta er þeir vottuðu Bandaríkjamönnum samúð sína.

Leiðarahöfundar voru þó ekki jafn kurteisir. „Hvernig stendur á því að Bandaríkjamenn láta bjóða sér byssulöggjöf og menningu sem virðist dæma þúsundir saklausra borgara til dauða ár hvert, þegar allar líkur eru á að strangari reglulr, eins og þær sem eru í gildi í Evrópuríkjum, myndu að minnsta kosti fækka dauðsföllunum?“ spurði leiðarahöfundur Times of London.

Í fyrra voru framin 46 morð með skotvopnum í Bretlandi, og hefur þessi tala ekki verið lægri síðan á síðari hluta níunda áratugarins. Í New York, þar sem íbúar eru um átta milljónir, voru framin 590 morð í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert