„Kerfið dugar ekki"

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera niður aflamark í þorski og halda óbreyttu kvótakerfið að öðru leyti. Kvótakerfið var sett á til að byggja upp þorskstofninn og stofna annarra nytjafiska. Þetta hefur mistekist. Þrátt fyrir þessa tegund friðunar og vísindalegrar verndunar fiskistofna þá hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina. Af hverju ekki að viðurkenna að kerfið dugi ekki. Þetta skrifar Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins á bloggvef sinn.

„Af hverju má ekki breyta til og setja flotann á sóknarmark í stað aflamarks. Það mundi draga verulega úr framhjálöndun og brottkasti. Af hverju má ekki heimila bátaflotanum að setja fleiri öngla út í sjóinn? Það skaðar ekki lífkerfið og veldur engu hruni.

Öllum má vera ljóst að það vantar æti í sjóinn. Getur verið að ríkisstjórnin sé með þessari ákvörðun að vinna gegn því markmiði að byggja upp þorskstofninn? Margt bendir til þess.

Með því að taka einhliða ákvörðun um að færa aflamark í þorski svona mikið niður. Halda kvótakerfinu óbreyttu og hafna því að heimila lítt takmarkaðar krókaveiðar frá sjávarbyggðum er ríkisstjórnin að taka ranga ákvörðun.

Miðað við þessa tilkynningu þá óttast ég að boðaðar mótvægisaðgerðir verði einnig vanhugsaðar og kosti mikil útgjöld úr ríkissjóði án þess að nokkuð verði byggt upp fyrir þá peninga. Það mætti ef til vill benda ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á að skapa skilyrði til að leyfa markaðnum að vinna sig út úr vandanum í stað þess að múlbinda allt í boðum og bönnum," að því er fram kemur á bloggvef Jóns Magnússonar.

Bloggvefur Jóns Magnússonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert