Tugir fálka í útrýmingarhættu skotnir á Kýpur

Byssumenn skutu 46 fálka á eynni Kýpur í Miðjarðarhafi í þeim tilgangi að æfa skotfimi sína. Fálkarnir eru sagðir vera í útrýmingarhættu. Þetta segja embættismenn á eyjunni.

Martin Hellicar, sem er framkvæmdastjóri Birdlife Cyprus, segir að fuglarnir hafi fundist liggja í hrúgu á landi bónda skammt hjá sumardvalarstaðnum Limassol, sem er á vesturhluta Kýpur. Sex fuglar til viðbótar höfðu verið skotnir en þeir eru enn á lífi.

Hellicar sagði að það sem gerir drápin enn verri væri sú staðreynd að nýlega hafi verið gefið út að rauðfættir fálkar væru í útrýmingarhættu um allan heim.

„Að vera í útrýmingarhættu um allan heim er eins slæmt og það verður, sem gerir þetta að einu versta tilfelli ólöglegra fugladrápa sem vitað er um í Evrópu,“ sagði Hellicar við AFP-fréttastofuna.

Hann segir ljóst að mennirnir sem skutu fuglana væru vanir menn þar sem aðeins 52 tóm skothylki fundust á svæðinu. Hylkin sem fundust eru af sömu tegund og keppnismenn nota til þess að skjóta niður leirdúfur.

Hellicar segir að fugladrápin hafi átt sér stað á mikilvægasta farfuglasvæði eyjunnar, en þangað komi þúsundir fugla. Þá er staðurinn mjög vinsæll meðal veiðiþjófa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert