Íslenskur prestur ræðir við Arafat

Arafat í hópi sendinefndar Lúterska heimssambandsins í morgun.
Arafat í hópi sendinefndar Lúterska heimssambandsins í morgun. AP

Séra Þorbjörn Hlynur Árnason, formaður mannréttinda og alþjóðanefndar Lúterska heimsambandsins, átti viðræður við Yasser Arafat, leiðtoga Palestsínumanna í höfuðstöðvum Arafats í Ramallah í morgun. Þorbjörn Hlynur sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að Arafat hafi á fundinum skorað á kristnar kirkjur og þjóðir heims að stöðva árásir Ísraelshers á Palestínumenn en að öðrum kosti sé hætta á að stórstyrjöld geti brotist út.

Fram kom að Þorbjörn Hlynur og aðrir í sendinefnd á vegum lúterska heimsambandsins voru þeir fyrstu sem heimsóttu Arafat eftir sex klukkustunda sprengjuárás Ísraelshers í fyrrinótt þar sem höfuðstöðvar forsetans voru lagðar í rúst. Sagði Þorbjörn Hlynur í viðtalinu að ástandið í Ramallah væri ótrúlegt og árásin á höfuðstöðvar Arafats lýsti aðeins botnlausu hatri en hefði engan sjáanlegan hernaðarlegan tilgang. Sendinefndin fór í gær um heimastjórnarsvæði Palestínumanna með lækni frá sjúkrahúsi sem lúterska heimsambandið rekur á Vesturbakkanum. Þorbjörn Hlynur sagði við RÚV að þar sé hvert þorp og hver borg eins og fangelsi. Byggðirnar séu afgirtar og umkringdar hermönnum og íbúar komist hvergi til að sinna vinnu eða til að komast á sjúkrahús eða annarra brýnna erinda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert