Travolta kominn og farinn

Flugvél Travoltas á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Flugvél Travoltas á Keflavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/Sævar Sævarsson

Bandaríski kvikmyndaleikarinn John Travolta lenti Boeing 707B þotu sinni í Keflavík þegar klukkuna vantaði stundarfjórðung í sex í morgun. Hann var sjálfur við stjórnvölinn og yfirgaf ekki stjórnklefa vélarinnar á meðan tekið var eldsneyti við Leifsstöð. Klukkan rúmlega 7 fór flugvélin síðan frá Keflavíkurflugvelli á ný að því er kemur fram á fréttavef Víkurfrétta. Til stóð að Travolta dveldi í nótt hér á landi en vegna bilana sem verið hafa í flugvélinni að undanförnu var hætt við það en áætlanir heimsferðar leikarans hafa raskast vegna þess.

Travolta kom til Íslands frá Anchorage í Alaska og héðan er ferðinni heitið áfram til Evrópu. Fram kemur á fréttavef Víkurfrétta að tveir öryggisverðir John Travolta hafi verið hér á landi síðustu daga og meðal annars tekið út gististaði og hugsanlega skoðunarstaði. Reynt var að bóka herbergi á Hótel Keflavík en þar var fullt. Einnig segja Víkurfréttir að Bláa lónið hafi verið inni í myndinni.

Travolta er í sérstakri ferð er nefnist á ensku "Spirit of Friendship". Ferðin er farin á vegum ástralska flugfélagsins Quantas í þeim tilgangi að bæta ímynd flugsins og boða frið í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum fyrir tæpu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert