Kuml og kirkjugarður úr frumkristni fundin í Hegranesi

Grafreiturinn í Keldudal á Hegranesi.
Grafreiturinn í Keldudal á Hegranesi. mbl.is/Kristinn

Komið hefur í ljós kirkjugarður frá árdögum kristni á Íslandi við fornleifauppgröft í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði. Fund kirkjugarðsins bar þannig að, að Þórarinn Leifsson, bóndi í Keldudal, gróf grunn fyrir nýju íbúðarhúsi og fékk mannabein í skófluna.

Starfsmenn Hólarannsóknar hafa verið að störfum í sumar og í fyrrasumar við að hreinsa ofan af kirkjugarðinum, sem er óvenju heillegur og mikill fengur fyrir íslenska fornleifafræði.

Í kirkjugarðinum hafa alls fundist 52 grafir, bæði grafir fullorðinna og barna. Bein eru ótrúlega vel varðveitt miðað við að jarðsett var í garðinum fyrir árið 1104, en þá gaus Hekla og lá gjóskulag yfir öll um garðinum.

Að sögn Guðnýjar Zoëga fornleifafræðings hafa nú fundist leifar húss undir kirkjugarðinum. Það hús gæti verið úr heiðni. Í Keldudal fannst fyrr í sumar heiðið kuml, með beinum fjögurra manna. Í kumlinu fannst meðal annars forláta útskorinn klæðaprjónn úr beini. Engar heimildir voru til um að kuml eða kirkjugarður væru í landi bæjarins. Sýnir þetta að menn hafa verið jarðsettir þar jafnt í heiðni sem kristni. Virðist sem kirkjugarðurinn hafi verið fallinn í gleymsku þegar á 13. öld þegar ritun heimilda hófst.

Rannsókn sem varpar ljósi á miðaldasamfélagið

Í viðtali við Ragnheiði Trausta dóttur, fornleifafræðing og stjórnanda Hólarannsóknar, í blaðinu í dag kemur fram, að í sumar hafi verið rannsakað á Hólum, í Keldudal og einnig í fornri höfn Hólabiskupa við Kolkuós. Rannsóknirnar séu unnar á þverfaglegum grunni, og nýtist niðurstöður þeirra til að varpa ljósi á miðaldasamfélagið á Íslandi.

Mikil áhersla er lögð á að tengja sem flest fræðasvið við rannsóknirnar, þannig að saman geti nið urstöður þeirra orðið sem víðtækastar. Þegar hafa komið í ljós mikil bæjarhús á Hólum, og meðal annars hefur fundist prentsmiðja frá 18. öld.

Grafreiturinn í Keldudal.
Grafreiturinn í Keldudal. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert