Olíufélögin dæmd til að greiða bætur

Verjendur olíufélaganna í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Verjendur olíufélaganna í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Kristinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt olíufélögin þrjú, Ker, Olíuverslun Íslands og Skeljung, til að greiða Reykjavíkurborg rúmar 72 milljónir króna í bætur og Strætó bs. 5.878.494 krónur í bætur. Að auki voru olíufélögin dæmd til að greiða samtals 1,3 milljónir króna í málskostnað. Bótakröfurnar voru lagðar fram á þeirri forsendu, að Reykjavík og Strætó hafi þurft að greiða of hátt verð fyrir eldsneyti á tilteknu tímabili vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna.

Niðurstaðan viðundandi

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hrl., sem fór með málið fyrir Reykjavíkurborg og Strætó, sagði að hann gæti fallist á að niðurstaðan væri viðunandi þótt dómurinn hafi ekki fallist á aðalkröfu Reykjavíkurborgar um 140 milljóna króna bætur. Dómurinn féllst hins vegar á varakröfu um 72 milljóna króna bætur. Sagði Vilhjálmur, að niðurstaðan væri merkileg fyrir þá sök, að dómurinn hefði dæmt borginni og Strætó í vil. „Fyrir mitt leyti get ég fallist á að þetta sé algjörlega viðunandi niðurstaða, og mjög merkileg niðurstaða að mörgu leiti,“ sagði Vilhjálmur.

Málið afar sérstakt

Gísli Baldur Garðarsson, lögmaður Olís, sagði að þetta mál væri afar sérstakt og sagðist ekki telja að það væri fordæmisgefandi vegna afar sérstakra málavaxta. „Þetta er mjög sérstakt mál og mun ekki að neinu leiti geta talist fordæmi fyrir önnur mál sem menn hafa verið að tala um hér í umræðunni,“ sagði hann og bætti því við að farið yrði yfir málið áður en frekari ákvarðanir yrðu teknar.

Í niðurstöðu dómsins í máli Reykjavíkur gegn olíufélögunum segir m.a., að fyrir liggi í málinu viðurkenning olíufélagannaá því, að þau hafi haft með sér ólögmætt samráð á árinu 1996 þegar Reykjavíkurborg var gert tilboð í gasolíu, bensín og steinolíu. Þá liggi fyrir, að borgin hafi keypt inn gasolíu og bensín af Skeljungi á grundvelli útboðsins allt til 1. janúar 2002. Eins og málið liggi fyrir verði að miða við að öll þau innkaup Reykjavíkur á gasolíu og bensíni, sem gerð sé grein fyrir í stefnu, hafi farið fram á grundvelli samnings sem kominn var til vegna sameiginlegs brots olíufélaganna gegn samkeppnislögum.

Aðalakröfu Reykjavíkurborgar hafnað

Dómurinn hafnaði aðalkröfu Reykjavíkurborgar en varakrafan, rúmar 72 milljónir, miðaðist við þær fjárhæðir, sem olíufélögin sömdu um, að Skeljungur myndi greiða hinum félögunum vegna sölu félagsins á eldsneyti til Reykjavíkur. Segist dómurinn fallast á, að brot á samkeppnislögum sé almennt til þess fallið að hækka verð, eða a.m.k. komast hjá lækkun verðs, í því skyni að skapa ávinning í einu eða öðru formi.

Þá segir, að samkomulag olíufélaganna verði ekki túlkað á aðra leið en þá, að þau hafi talið sig hagnast á samráði sínu sem næmi a.m.k. þeim fjárhæðum sem skipta áttu um hendur við sölu á hverjum lítra eldsneytis. Einnig liggi fyrir að samkomulagið var efnt og Skeljungur innti af hendi greiðslur til hinna félaganna vegna viðskipta sinna við Reykjavíkurborg. Þessar greiðslur hafi farið fram án þess að séð verði að Ker og Olíuverslun Íslands hafi haft nokkurn kostnað af viðskiptum Skeljungs við Reykjavík. Verði greiðslurnar því ekki skýrðar með öðrum hætti en þeim, að litið hafi verið svo á að hér væri um hreinan ávinning af samráði félagnna að ræða. Þá telji dómurinn óeðlilegt að ætla annað en að Skeljungur hafi ætlað sér sambærilegan ávinning af samningnum og aðrir stefndu.

Það er því álit dómsins, að gögn málsins bendi eindregið til þess að þær fjárhæðir, sem forsvarsmenn olíufélaganna sammæltust um að skipta á milli sín við útboðið 3. júní 1996 hafi svarað til fjárhæða, sem voru umfram eðlilega framlegð við sölu á gasolíu og bensíni til borgarinnar samkvæmt forsendum útboðsins. Verulegar líkur hafi verið leiddar að því, að ef samráðið hefði ekki komið til, hefðu verð í útboðinu 3. júní 1996 a.m.k. orðið lægri sem nemur þeim fjárhæðum sem félögin sammæltust um að skipta með sér. Er því fallist á varakröfu Reykjavíkurborgar.

Fram kemur í dómnum, að olíufélögin hafi haldið því fram, að Reykjavíkurborg hafi borið að takmarka tjón sitt með því að velta umræddum kostnaði út í verðlagið. Einkum var vísað til þess, að unnt hafi verið að hækka fargjöld SVR. Dómurinn segir að ekkert hafi komið í málinu um að hugsanleg hækkun á fargjöldum SVR hefði leitt til takmörkunar tjóns. sé því þessi málsástæða ósönnuð.

Dómurinn var fjölskipaður og skipuðu hann héraðsdómararnir Sigrún Guðmundsdóttir, Friðbjörn Björnsson og Skúli Magnússon.

Dómur í máli Reykjavíkur gegn olíufélögunum

Dómur í máli Strætó gegn olíufélögunum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert