Kæra NCL til lögreglu

Lettarnir þrettán sem sagðir eru hafa verið starfsmenn GT verktaka ehf. við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar, eru í raun starfsmenn hjá starfsmannaleigunni Nordic Construction Line (NCL). Framkvæmdastjóri AFLs, starfsgreinasambands Austurlands, segir um lagaflækjur að ræða og NCL verði kært til lögreglu eins og GT Verktakar.

AFL og Vinnumálastofnun kærðu GT verktaka ehf., undirverktaka Arnarfells við Hraunaveitu, til lögreglu í fyrradag vegna brota á kjarasamningum lettnesku mannanna og gruns um að rangar upplýsingar hafi verið gefnar til Vinnumálastofnunar um launamál starfsmanna GT verktaka.

Segir í yfirlýsingu frá NCL að vegna veðurs og samdráttar í verkefnum á virkjanasvæðinu hafi Arnarfell farið fram á að starfsmönnum yrði fækkað þar. Sé það ástæða þess að senda átti 13 starfsmenn NCL þaðan. Segir einnig að starfsmenn leigunnar njóti kjara skv. virkjunarsamningi og hafi móttekið launagreiðslur til samræmis við það og staðfest með undirskrift sinni. Dylgjum um réttarbrot gagnvart starfsmönnunum verði svarað á öðrum vettvangi, væntanlega með kröfu um lögreglurannsókn.

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, segir að NCL verði kært til lögreglu en væntanlega þurfi að sækja ábyrgð varðandi greiðslur til mannanna þrettán til Arnarfells skv. mánaðargömlu samkomulagi við Vinnumálastofnun. Sverrir segir að kallað verði eftir gögnum um alla útlendinga sem starfað hafi fyrir GT verktaka.

Í yfirlýsingu frá GT verktökum segir að AFLi og Vinnumálastofnun sé fullkunnugt um að Lettarnir 13 séu starfsmenn NCL. Með ásökunum AFLs sé verið að væna tvo einstaklinga sem sáu um launagreiðslur til mannanna um fjárdráttarbrot. Þeir séu nú ásamt lögmanni að kanna réttarstöðu sína og hvort ástæða sé að óska opinberrar rannsóknar vegna rangra sakargifta.

Reynt að hylja slóðina

Þing Starfsgreinasambands Íslands samþykkti að skora á félagsmálaráðherra að beita sér nú þegar fyrir því að teknar verði skýrslur af Lettunum þrettán og sjá til þess að málum þeirra verði fylgt eftir af fyllstu hörku.

"Fram hefur komið í viðtölum við þessa menn að þeir hafa verið þvingaðir með hótunum og vísan til fátæktar og atvinnuleysis í heimalandi þeirra, til að kvitta fyrir móttöku mun hærri launa en þeir hafa þegið," segir í ályktun þingsins.

Ennfremur áréttar þingið það sem ítrekað hefur komið fram, að núverandi lagarammi ræður engan veginn við aðstæður sem skapast þegar "glæpafyrirtæki" fara að misnota atvinnufrelsi íbúa ríkja fyrrum austantjaldsríkja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert