„Mozart skáklistarinnar“

Bobby Fischer við komua til Íslands 2005.
Bobby Fischer við komua til Íslands 2005. mbl.is/Sverrir

Fjallað var um andlát Bobbys Fischers hjá helstu fréttastofum og fjölmiðlum um allan heim, ferill hans rakinn, lýst síðustu árunum á Íslandi og vitnað í ummæli þekktra skákmanna um snilld meistarans. Hann hafi snemma á ferlinum verið kallaður „Mozart skáklistarinnar“. The New York Times birti grein á vefsíðu sinni þar sem honum var lýst sem umdeildum snillingi er ekki fór troðnar slóðir og „var einn af mestu skákmönnum sögunnar“.

Fischer hefði með því að sigra Borís Spasskí með einstaklega glæsilegum hætti árið 1972 í Reykjavík heppnast að sýna Bandaríkjamönnum fram á að skák gæti verið æsispennandi, eins og einvígi þar sem barist væri upp á líf og dauða.

Blaðið bætti við að Fischer hefði hins vegar ekki þolað að vera lengi í sviðsljósinu og dregið sig inn í skel og undir lokin hefði hann hatað Bandaríkin.

Margir fjölmiðlar minntu á erfiða æsku hans, móðir hans hefði verið gyðingur en sonurinn fyllst gyðingahatri, þrátt fyrir upprunann. Mæðginin hefðu þó haldið sambandi þar til móðirin lést 1997.

Herald Sun, víðlesnasta blað Ástralíu, segir á vefsíðu sinni að Fischer hafi verið afar umdeildur og rifjar m.a. upp hatursfull ummæli hans um Bandaríkin og gyðinga. Einnig er minnt á þá skoðun hans að fjölmiðlar gerðu í því að sverta hann og draga upp ranga mynd af honum. Hann hafi kvartað undan þessu í útvarpsviðtali á Filippseyjum en þar mun Fischer hafa eignast dóttur með filippseyskri konu.

„Þeir stagast alltaf á orðunum furðulegur, furðulegur, furðulegur, undarlegur. Ég er leiðinlegur, leiðinlegur!“ sagði Fischer.

„Brjálaður skáksnillingur látinn“ var fyrirsögnin á vefsíðu Politiken í Danmörku. Þar segir að Fischer hafi oft verið talinn meðal bestu skákmanna allra tíma en erfið lund hans og hegðun hafi oft hindrað frama hans. Rifjað er upp að hann hafi búið í Kaliforníu í lok sjöunda áratugarins og þar hafi áhugi hans á ritum um gyðingahatur vaxið. Hann hafi lesið Mein Kampf Hitlers og jafnvel haft mynd af nasistaleiðtoganum yfir rúminu sínu. Blaðið segir að þegar stórmeistarinn Larry Evans spurði hann af hverju hann dáði Hitler hefði svarið verið: „Af því að hann þröngvaði vilja sínum upp á heiminn.“

Á vefsíðu breska blaðsins The Guardian var ítarleg grein um Fischer eftir þekktan, breskan skákmann, Leonard Barden, sem þekkti meistarann allvel. Hann segir frá því að faðir Fischers, eðlisfræðingurinn Hans-Gerhardt Fischer, hafi verið af þýskum uppruna og móðirin, Regina Fischer, var af þýsk-bandarískum ættum. Hún var afar vinstrisinnuð og mikill friðarsinni en sjálfur studdi Fischer Richard Nixon í forsetakosningunum 1972. En Barden segir vísbendingar fyrir hendi um að Fischer hafi verið rangfeðraður, raunverulegi faðirinn hafi verið Ungverjinn Paul Nemenyi sem móðirin hitti eftir að hún var skilin við Hans-Gerhardt-Fischer. Nemenyi var einnig eðlisfræðingur og vann að smíði kveikjubúnaðar fyrstu kjarnorkusprengjunnar sem sprengd var 1945.

Barden lýsir því er Fischer var gestur á heimili Bardens í Bretlandi 1960. Hann hafi haft feiknarlega matarlyst og klárað allt ætilegt úr ísskáp móður Bardens. „Við tefldum fimm mínútna hraðskák og þó að ég væri þá breskur meistari í hraðskák slátraði hann mér gersamlega. „Þú ert bara breskur aumingi,“ sagði hann stríðnislega. Augu Fischers, sem sátu djúpt, stórar hendurnar og fingur sem minntu á klær, höfðu mikil áhrif á mann, jafnvel dáleiðandi áhrif,“ segir Barden.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert