Hallargarðurinn falur

Fríkirkjuvegur 11
Fríkirkjuvegur 11 Árvakur/Sverrir

Tillaga þess efnis að öll lóðin umhverfis húsið við Fríkirkjuveg 11, þar á meðal Hallargarðurinn, verði leigð til væntanlegs kaupanda hússins, Novators fyrirtækis Björgólfs Thors Björgólfssonar, bíður afgreiðslu borgarráðs Reykjavíkur. 24 stundir hafa uppkast af leigusamningnum undir höndum og mun það, samkvæmt heimildum blaðsins, hafa verið tekið til umræðu á síðasta borgarráðsfundi en tekið af dagskrá að honum loknum þar sem fulltrúar voru ekki tilbúnir að taka afstöðu.

Hægt að loka garðinum

Í uppkastinu er kveðið á um að almenningi verði tryggt fullt aðgengi að garðinum en þó með undantekningum. „Heimilt er lóðarhafa að takmarka tímabundið umferð um lóðina að nokkru eða öllu leyti, enda sé það af lögregluyfirvöldum talið óhjákvæmilegt m.t.t. öryggis íbúa eða gesta í húsinu eða þarfa þeirra að öðru leyti,“ segir í uppkastinu.

„Það er alls ekki frágengið hvort lóðin öll verði leigð. Það er okkar leiðarljós að tryggja að garðurinn verði áfram almenningsgarður,“ segir Ólafur F. Magnússon borgarstjóri, aðspurður um það hvort honum hugnist að garðurinn verði leigður kaupendum hússins. „Tillagan liggur ekki ennþá fullmótuð fyrir því þessi sjónarmið öll þarf að ígrunda vel áður en gengið er til samninga um þetta mál.“

Ólafur var á sínum tíma andvígur því að selja húsið. „Þetta var þó samþykkt og síðan er liðinn langur tími og brýnt að fara að finna einhverja lausn á þessu máli og húsið stendur autt og ónotað og það er ekki gott fyrir varðveislu þess,“ segir Ólafur.

Almenningsgarðar falir

„Það er mjög undarlegt eftir þann lærdóm sem fólk hefur dregið af REI-málinu að ekki sé passað betur upp á almannahagsmuni eins og nú virðist vera raunin,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, aðspurður um það hvað honum finnist um að garðurinn verði leigður. Hann segir Vinstri græn hafa verið andvíg sölu hússins fá upphafi og efast jafnframt um að hver sem er hefði fengið jafnmikla fyrirgreiðslu og Novator hefur fengið. „Ég get ekki betur séð en menn séu að falla kylliflatir fyrir auðmönnum í borginni,“ segir Þorleifur og bætir við að hann óttist að þetta mál muni skapa fordæmi um að almenningsgarðar séu falir fyrir rétt verð.

Vilja tryggja aðgengi

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Novators, segir það ekkert sérstakt keppikefli fyrir Novator að ráða yfir garðinum. „Það sem skiptir okkur máli er að tryggja aðgengi að húsinu til samræmis við þá starfsemi sem þar á að fara fram,“ segir hann. Ásgeir segir að upphaflega tilboðið hafi byggt á þeirri forsendu að þetta aðgengi yrði tryggt og bendir á aðgengi að húsinu sé mjög slæmt eins og er.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert