SUS fagnar lækkun tekjuskatts á fyrirtæki

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka tekjuskatt á fyrirtæki úr 18% og niður í 15%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

„ Lægri skattar auka arðsemi fyrirtækja sem skilar sér í auknum umsvifum og stærri skattstofni ríkisins í fyllingu tímans. Að sama skapi tryggja áframhaldandi skattalækkanir aukna samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs auk þess sem þær opinbera staðfestu Sjálfstæðisflokksins að ganga lengra í umbótum á skattkerfinu en samkeppnisþjóðir okkar. Að afstaðinni tekjuskattslækkun eru skattar á fyrirtæki næstlægstir á Íslandi innan OECD sem styður áfram við vöxt og viðgang íslensks atvinnulífs.
 
Nýlegir kjarasamningar eru skýrt merki um stöðugleika á vinnumarkaði og Ungir sjálfstæðismenn fagna skynsamlegri lendingu atvinnurekenda og launþega sem bindast böndum um að hækka lægstu laun án þess að stefna kaupmætti launa í hættu. Samningsaðilar eiga hrós skilið. Hins vegar harmar SUS að ríkið blandi sér í kjarasamninga á frjálsum vinnumarkaði og taka beinan þátt í liðka fyrir gerð þeirra með yfirlýsingum sem flækja skattkerfið enn frekar.
 
Ungir sjálfstæðismenn gera alvarlegar athugasemdir við breytingu á útreikningi bóta auk annarrar tekjutilfærsluliða sem ríkisstjórnin boðaði í kjölfar nýgerða kjarasamninga á frjálsum markaði. Að sama skapi telur SUS hugmyndir um óútfært húsnæðissparnaðarkerfi kjánalegar í versta falli en óheppilegar í besta falli. Enda hefur ríkið engu hlutverki að gegna á húsnæðismarkaði og ætti t.a.m. að vera fyrir löngu búið að selja eða leggja niður Íbúðalánasjóð.
 
Áherslan á einfalt skattkerfi á að vera ófrávíkjanlegt markmið til framtíðar enda er það grunnforsenda að skattgreiðendur skilji á einfaldan máta hvernig ríkið heimtir af þeim skatta. SUS ítrekar þá skoðun sambandsins að tekjuskattur einstaklinga eigi fyrst og fremst að vera tekjuöflunartæki en ekki tæki til tekjujöfnunar. Heppilegra er að aðskilja í auknum mæli tekjuöflun og tekjujöfnun enda væri slík tilhögun til þess fallin að einfalda skattkerfið og gera tekjujöfnunarkerfi gagnsærra en nú er. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar gengur þvert á þessar hugmyndir og Ungir sjálfstæðismenn lýsa vonbrigðum sínum með hana.
 
Ungir sjálfstæðismenn gera þá kröfu til hins opinbera að ríki og sveitafélög sýni samskonar stillingu og skynsemi við gerð kjarasamninga við opinbera starfsmenn og raun bar vitni við gerð kjarasamninga á frjálsum vinnumarkaði. Ábyrgð hins opinbera er mikil í komandi kjarasamningum og það væri algerlega óásættanlegt ábyrgðarleysi ef launahækkanir ríkisstarfsmanna væru úr takti við nýgerða kjarasamninga. Forskriftin er skýr: Ríkisstjórninni ber fyrst og fremst að standa varðstöðu um kaupmátt launa og stuðla að jafnvægi í hagkerfinu.
 
Í þessu samhengi ber að ítreka tillögu Ungra sjálfstæðismanna um að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi og hefji fyrir alvöru aðhald í rekstri hins opinbera. Þensla ríkis og sveitarfélaga á undangengnum árum er með öllu óásættanleg. Aðhald í ríkisrekstri er öllum landsmönnum til hagsbóta og myndi eitt og sér skapa óyggjandi forsendur fyrir Seðlabanka Íslands til að hefja vaxtalækkunarferli sitt fyrr en ella."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert