Vill stofna setur til verndar íslensku geitinni

„Það verður að gera eitthvað róttækt til þess að bjarga þessum geitum,“ segir Jóhanna B. Þorvaldsdóttir, hjúkrunarfræðingur og geitabóndi á Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði. Hún vill að stofnað verði geitfjársetur um íslenska geitastofninn. Jóhanna hefur átt geitur í 18 ár og kveðst hafa baslað í því í 15 ár að tryggja framtíð þessa litla stofns sem telur aðeins um 400 dýr. Telur Jóhanna hætt við að ýmsir eiginleikar landnámsstofns íslenskra geita glatist fyrir fullt og allt verði fjölbreytni hans ekki tryggð.

„Hér á Háafelli eru einu kollóttu (hornlausu) dýrin sem eftir eru. Eins viss litarafbrigði sem fylgja kollótta erfðaeiginleikanum og finnast hvergi nema hér,“ sagði Jóhanna. Norðmenn eiga gamlan geitastofn, svonefndan víkingastofn, en íslensku geiturnar eru frábrugðnar honum á ýmsan hátt.

„Íslenski stofninn hefur þróað með sér kasmírull. Ég kembi af geitunum mjög mjúka og fína ull sem ekki finnst á þeim norsku. Svo eru miklu færri sjúkdómar í geitum á Íslandi en í Noregi. Í raun er það bara garnaveiki sem hrjáir íslenskar geitur eitthvað að ráði. Hægt er að bólusetja kiðlingana við henni. Í Noregi er landlæg lungnabólga í geitum sem ég hef aldrei heyrt um hér.“

Síðastliðinn vetur voru 116 geitur á fóðrum á Háafelli og er þar langstærsta einstaka geitahjörð landsins. Reiknað er með að um 80 huðnur beri þar í vor. Í hjörðinni eru einnig tólf hafrar, þar af nokkrir sauðhafrar sem þóttu pasturslitlir ungir og voru því geltir af dýralækni svo þeir brögguðust betur.

Hugmyndin að geitasetrinu er unnin í samvinnu við Bændasamtök Íslands. Leitað hefur verið eftir fjárstuðningi, m.a. til ríkisins. Það styrkir nú geitarækt um 6.000 kr. á geit á ári, en þó aldrei fleiri en 20 geitur á hverjum bæ. Hafin er undirskriftasöfnun (http://geitin.blogcentral.is/) til að hvetja yfirvöld til að stuðla að stofnun geitaseturs.

„Þetta er síðasta árið sem ég get lagt í þetta pening. Ég hætti með geiturnar í haust ef ekki finnast samstarfsaðilar,“ sagði Jóhanna. Hún kvaðst hafa gefið alla vinnu sína við geiturnar í mörg ár. „Það er slæmt ef svona ræktunarstarf stendur og fellur með örfáum manneskjum. Því er mikilvægt að koma upp geitfjársetri og stofna félag um það. Það þurfa fleiri að vera í ábyrgð.“ Jóhanna telur að Háafell sé kjörinn staður fyrir geitfjársetur. Þar er stærsta hjörð landsins og hægt að taka á móti ferðamönnum. Eins að stunda rannsóknir á landnámsgeitunum í samvinnu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert