Umhverfismat ekki til að stöðva framkvæmdir

Kort sem sýnir hvar fyrirhugað er að reisa álver við …
Kort sem sýnir hvar fyrirhugað er að reisa álver við Bakka

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segist skilja vel ákvörðun umhverfisráðherra, því fram hafi komið hjá Skipulagsstofnun og öllum sem að framkvæmdum koma að mikilvægt væri að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda fari fram á sama tíma vegna álvers á Bakka, línulagna og varmavirkjana á Þeistareykjum og Kröflu. Umhverfisráðherra telji mikilvægt að fram fari mat á sama tíma og sameiginlegt mat sé ekki íþyngjandi enda þurfi allar framkvæmdirnar að fara í gegnum umhverfismat.

„Það er eðlilegt að stuðst sé við lögin eins og þau eru um heildarmat,“ segir Ingibjörg Sólrún. Niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafi verið áfrýjað til umhverfisráðherra sem hafi nú kveðið upp sinn úrskurð. Varðandi Helguvík hafi verið áfrýjað of seint til ráðherra og hefði sambærileg ákvörðun engu að síður verið tekin hefði hún verið íþyngjandi fyrir þá sem að framkvæmdum stæðu.

Utanríkisráðherra segir að menn séu að fara fram úr sér þegar þeir segi að þetta hafi tafir í för með sér. Gert sé ráð fyrir að tími sé til 2012 til að undirbúa framkvæmdirnar og nýbúið sé að skrifa undir viljayfirlýsingu þess efnis.

Ingibjörg Sólrún segir ljóst að allar fyrrnefndar framkvæmdir hafi þurft að fara í umhverfismat. Fram geti komið ýmsar athugasemdir og undan því verði ekki vikist. „Umhverfismat er ekki til þess að stöðva framkvæmdir. Umhverfismat er til þess að reyna að leiða fram ef það eru einhverjir agnúar á framkvæmdinni og hvernig eigi að sníða þá af.“

Umhverfisnefnd fundar

Umhverfisnefnd alþingis mun að öllum líkindum koma saman í næstu viku vegna úrskurðar umhverfisráðherra þess efnis að fyrirhugað álver á Bakka við Húsavík skuli fara í sameiginlegt umhverfismat með tengdum virkjanaframkvæmdum.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður og fulltrúi Framsóknarflokks í nefndinni, kveðst hafa óskað eftir fundinum. „Fólk er mjög uggandi, sérstaklega fyrir norðan. Ég held að það sé mjög mikilvægt að farið verði yfir þetta mál, svo hugur ríkisstjórnarinnar verði á hreinu og ekki sé verið að vinna að einhverju sem svo verður ekki af,“ segir Höskuldur. Úrskurðurinn sé einn stærsti steinn sem lagður hafi verið í götu verkefnisins á Bakka. Þórunn fari harðari höndum um álverið á Bakka en álverið í Helguvík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert