Íslenskupróf skilyrði fyrir ríkisborgararétti

Frá og með 1. janúar næstkomandi þurfa allir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt að standast próf í íslensku, samkvæmt lögum sem taka gildi um áramótin. Þetta kemur fram í vefriti Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem gefið var út í dag. Gert er ráð fyrir að Námsmatsstofnun eða sambærileg stofnun annist framkvæmd prófanna, sem haldin verða a.m.k. tvisvar sinnum á ári.

Fram kemur að til að standast prófið þarf umsækjandi m.a. að geta lesið og skrifað stutta texta á einföldu máli, skilið einfaldar samræður á milli manna, bjargað sér við óvæntar aðstæður og greint aðalatriði í ljósvakamiðlum þegar um kunnugleg efni er að ræða. Þannig verður reynt á tal og ritun auk hlustunar- og lesskilnings.

Ekki verður skylda fyrir umsækjendur að sitja námskeið áður en þeir þreyta prófið, en þyngd þess miðast hinsvegar við námskrá menntamálaráðuneytisins um grunnám í íslensku fyrir útlendinga, að undanskildu markmiði um undirstöðuþekkingu á helstu siðum og venjum í íslensku samfélagi.

Engar hömlur verða á því hversu oft umsækjendur mega taka prófin, en hinsvegar er stefnt að því að umsækjendur greiði próftökugjald. Þeir sem þegar hafa lagt fram umsókn um ríkisborgararétt fyrir 1. janúar 2009 þurfa ekki að gangast undir íslenskupróf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert