Áforma að byggja 200 MWe jarðhitavirkjun

Horft til norðurs af Bæjarfjalli yfir Þeistareykjagrundir.
Horft til norðurs af Bæjarfjalli yfir Þeistareykjagrundir.

Þeistareykir ehf. áforma að reisa allt að 200 MWe jarðhitavirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit og Norðurþingi, í Þingeyjarsýslu. Áform um byggingu virkjunarinnar eru liður í virkjun háhita á Norðausturlandi fyrir álver á Bakka við Húsavík eða aðra orkukaupendur.

Drög að tillögu að matsáætlun hafa verið birt á heimasíðu Þeistareykja og rennur frestur til að gera athugasemdir út 6. mars 2009.

Í tillögunni er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst. Fjallað er um þá umhverfisþætti sem teknir verða fyrir í matinu. Einnig er tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matið og hvaða rannsóknir er fyrirhugað að ráðast í vegna mats á umhverfisáhrifum.

Þeistareykir ehf. höfðu áður lagt fram tillögu að matsáætlun þann 13. mars 2008 fyrir allt að 150 MWe virkjun. Skipulagsstofnun féllst á matsáætlunina 29. maí sama ár. Matsáætlunin var dregin til baka 6. nóvember 2008. Ástæðan er að með úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008, um að meta eigi sameiginlega umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka, var ljóst að tímaáætlanir verkefnisins myndu ekki standast.

Einnig var talið nauðsynlegt að endurskoða tillögu að matsáætlun fyrir virkjunina. Jafnframt er unnið að mati á umhverfisáhrifum rannsóknaborana á Þeistareykjum með það að markmiði að Þeistareykir ehf. hafi möguleika á að bora rannsóknaholur áður en matsferli Þeistareykjavirkjunar lýkur.

Rannsóknaboranir eru nauðsynlegur undirbúningur fyrir ákvörðun um virkjunarframkvæmdir. Niðurstöður þeirra rannsókna eru þó ekki taldar forsenda fyrir mat á umhverfisaáhrifum Þeistareykjavirkjunar.

Að mati sérfræðinga Þeistareykja ehf. á sviði forðafræði er nú talið að svæðið beri allt að 200 MWe virkjun og miðast mat á umhverfisáhrifum við það. Fyrirhugaðar rannsóknaholur skera ekki úr um mat á vinnslugetu jarðhitasvæðisins þó þær bæti í þekkingu manna á svæðinu.

Framkvæmdaraðili mun ákveða endanlega stærð virkjunar og sækja um tilskilin leyfi út frá niðurstöðum borana og frekari rannsókna, þó að við mat á umhverfisáhrifum sé gengið út frá tiltekinni hámarksstærð.

Í samræmi við leiðbeiningar Skipulagsstofnunar hafa verið lögð fram ný drög að tillögu að matsáætlun Þeistareykjavirkjunar. Við matið er nú miðað við að uppsett afl virkjunarinnar verði meira en gert var ráð fyrir í eldri matsáætlun, þar sem rannsóknir á jarðhitasvæðinu gefa vísbendingar um að austurhluti þess búi yfir meiri orku en áður var talið.

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er talið vera eitt af þremur stærstu jarðhitasvæðum á Norðurlandi eystra. Þeistareykir ehf. var stofnað í apríl 1999. Stofnaðilar eru orkufyrirtækin Orkuveita Húsavíkur og Norðurorka ásamt Þingeyjarsveit. Haustið 2005 eignaðist Landsvirkjun um 32% í fyrirtækinu.

Áform um byggingu virkjunarinnar eru liður í virkjun háhita á Norðausturlandi, það er á Þeistareykjum, í Kröflu, Bjarnarflagi og hugsanlega einnig í Gjástykki, fyrir álver á Bakka við Húsavík eða aðra orkukaupendur. Þeistareykir ehf., sem er framkvæmdaraðili, hefur rannsóknarleyfi á Þeistareykjum og hefur gert samning við landeigendur um rannsókna- og nýtingarrétt. Mannvit hf. er ráðgjafi Þeistareykja ehf. við mat á umhverfisáhrifum.

Samhliða mati á umhverfisáhrifum Þeistareykjavirkjunar vinna Landsvirkjun að mati á umhverfisáhrifum jarðhitavirkjunar við Kröflu, Landsnet hf. að mati á umhverfisáhrifum háspennulína frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum að Bakka við Húsavík og Alcoa að mati á umhverfisáhrifum álvers á Bakka.

Í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008, og leiðbeiningar Skipulagsstofnunar í kjölfar úrskurðarins, verða frummatsskýrslur framangreindra framkvæmda settar fram samtímis sem og sameiginlegt mat þeirra allra.

Heimasíða Þeistareykja

Þeistareykir
Þeistareykir mbl.is/Birkir Fanndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert