Reykjavík með „ódýrustu" borgum í Evrópu

Reykjavík er orðin ein ódýrasta borg í Evrópu.
Reykjavík er orðin ein ódýrasta borg í Evrópu.

Fjármálahrunið á Íslandi og gengisfall íslensku krónunnar hefur haft ýmsar afleiðingar, meðal annars þær að Reykjavík telst nú með ódýrustu borgum Vestur-Evrópu, það er að segja fyrir aðra en Íslendinga.

Breska tímaritið Economist gerir árlega könnun á því hvað kostar fyrir aðra en heimamenn að búa í borgum um allan heim. Venjulega verða litlar breytingar á listanum milli ára en í því fjármálaumróti, sem orðið hefur síðustu mánuðina með tilheyrandi gengissveiflum hefur allt snúist á haus.

Af 132 borgum víða um heim, sem Economist tekur með í könnunina, er Reykjavík nú í 67. sæti en var í 5. sæti í fyrra. Aðeins ein borg í Vestur-Evrópu er ódýrari, það er Manchester en vegna gengisfalls breska pundsins gagnvart evru hafa breskar borgir lækkað mikið á listanum. Lundúnir voru t.d. 8. dýrasta borgin í fyrra en hafa nú fallið í það 27.   

Gengi japanska jensins hefur hins vegar haldist hátt og því eru tvær japanskar borgir, Tókýó og Ósaka, nú í tveimur efstu sætunum á listanum yfir dýrustu borgirnar.  Ósló, sem í fyrra var dýrasta borgin, er nú komin niður í 5. sæti á eftir París og Kaupmannahöfn. 

Ódýrustu borgirnar eru flestar í Asíu. Sú ódýrasta er Karachi í Pakistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert