Dæmdur fyrir umferðar- og fíkniefnabrot

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir umferðarlagabrot og vörslu fíkniefna. Voru fíkniefnin, 201,21 gramm af kannabisefnum, gerð upptæk auk rafbyssu sem lögregla lagði hald á. Maðurinn, sem er 25 ára að aldri, játaði brot sín, sem framin voru í júlí í fyrra, skýlaust.

Samkvæmt sakavottorði mannsins hefur hann hlotið 11 refsidóma frá árinu 2000 fyrir ýmiss konar brot, m.a. fíkniefnabrot og auðgunarbrot. Hann hefur átt við fíkniefnavanda að stríða en hefur leitað sér aðstoðar, er í sambúð og á ungt barn. Bæði vegna breyttra aðstæðna í lífi mannsins og að hann játaði brot sín skýlaust var ákveðið að skilorðsbinda refsingu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert