Fagnar samkeppninni

Finnur Sveinbjörnsson forstjóri Kaupþings.
Finnur Sveinbjörnsson forstjóri Kaupþings. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Kaupþing fagnar allri samkeppni,“ segir Finnur Sveinbjörnsson, forstjóri Nýja Kaupþings. Hann segir forsvarsmenn bankans vilja gera allt til þess að standa sig sem best í samkeppni við aðra banka, og þannig sé staðan nú.

Færslan á innstæðum frá SPRON til Nýja Kaupþings hafi gengið vel og viðskiptavinir SPRON hafi ekki fundið fyrir óþægindum vegna færslunnar á innstæðum. Starfsmenn Nýja Kaupþings hafi unnið ötullega að því að láta færsluna ganga sem allra best.

Hann segir athugasemdir Nýja Kaupþings, varðandi söluna á SPRON og netbankanum til MP banka, fyrst og fremst snúa að því hvernig staðið var sölunni. Fyrir hafi legið að 83 milljarða skuldbinding vegna innstæða viðskiptavina SPRON hafði verið færð til Nýja Kaupþings, með ákvörðun stjórnvalda, og það mál hefði í raun ekki verið klárað þegar skilanefnd SPRON seldi sjóðinn fyrir 800 milljónir. „Í mínum huga er það forgangsverkefni að tryggja það að búið sé rétt um hnútana varðandi færsluna á þessum innstæðum, til þess að óvissa viðskiptavina sé sem allra minnst,“ segir Finnur.

Sérstaklega horfa forsvarsmenn Nýja Kaupþings til þess að eignir SPRON hafi átt að vera til tryggingar þeim innlánum sem færð voru yfir í bankann eftir að SPRON féll. Ferlið hafi hins vegar ekki verið klárað, áður en samþykkt var að selja SPRON til MP banka, og því sé uppi óvissa í málinu sem þurfi að greiða úr. Því fyrr sem það gerist því betra, segir Finnur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka