Kolbrún á fund vegna skipulags

Kolbrún Halldórsdóttir.
Kolbrún Halldórsdóttir. mbl.is/Steinar Hugi

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra hefur verið boðuð á fund umhverfisnefndar Alþingis í dag ásamt oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna staðfestingar á breytingu á skipulagi hreppsins sem nú er til umfjöllunar í ráðuneytinu. Breytingin snýst um að koma Holta- og Hvammsvirkjunum í Þjórsá inn á skipulag.

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra segist ekki þekkja málið efnislega en það sé til umfjöllunar hjá lögfræðideild ráðuneytisins. Það sé skylda ráðherra að staðfesta skipulag, ef það er unnið í samræmi við lög.

Fimm mánuði í ráðuneytinu

Sveitarstjórn vann skipulagið í samvinnu við Skipulagsstofnun og var öllum athugasemdum svarað í lögbundnu umsagnarferli, að sögn Gunnars Arnar Marteinssonar oddvita. Skipulagsstofnun sendi skipulagið til staðfestingar ráðherra 17. nóvember. Sveitarstjórn hafi óvænt fengið bréf frá ráðuneytinu 25. mars sl. þar sem fram komi að meðal annars í ljósi framkominna athugasemda sem með voru sendar væri til athugunar hvort ástæða væri til að synja umræddri breytingartillögu staðfestingar. Þessar athugasemdir virðast hafa borist ráðuneytinu um miðjan janúar. Gunnar Örn segir einkennilegt að eftir að málið hafi verið allan þennan tíma í ráðuneytinu hafi sveitarstjórn aðeins gefist nokkurra daga frestur til að svara þessum athugasemdum. Það hafi þó tekist. Gunnar telur ekkert nýtt koma fram í þessum athugasemdum og þeim hafi áður verið svarað, í formlegu athugasemdaferli skipulagsins. Hreppsnefndin og lögmaður hennar telja að það hafi verið unnið í einu og öllu eftir lögum.

Í svari hreppsins kemur fram sú krafa að Kolbrún Halldórsdóttir víki sæti sem umhverfisráðherra við afgreiðslu málsins í ljósi þess að hún hafi tjáð sig mikið um virkjanirnar og skoðanir hennar kunni að hafa áhrif á niðurstöðuna. Formaður umhverfisnefndar hefur óskað eftir því að Atli Gíslason, varaformaður nefndarinnar, sitji ekki fundinn í dag, en hann skrifar annað athugasemdabréfið til ráðherra sem lögmaður kærenda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert