Þurfum öll að búa okkur undir breytingar

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra.
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, sagði á ársfundi Landspítalans í dag, að ekki stæði til að mæta hagræðingarkröfu á sjúkrahúsinu með uppsögnum. Kallaði hann eftir samstarfi heilbrigðisyfirvalda, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra heilbrigðisstétta um það hvernig Íslendingar geti unnið sig út úr kreppunni þannig að sparnaður náist án þess að skaða sjúklinga og hlífa störfum.

Þá sagðist Ögmundur telja það skyldu Íslendinga, að nýta efnahagshrunið til að aftengja sjálfstýringu í heilbrigðisþjónustu. „Þetta þýðir að við þurfum öll að búa okkur undir breytingar – starfsmenn, stjórnendur og heilbrigðisyfirvöld," sagði Ögmundur. „Sjálfstýring þýðir að við hækkum ekki bara þjónustugjöld á sjúka þegar vantar klink í kassann, sjálfstýring þýðir líka að við gerum ekki lengur út á aukafjárveitingar að hausti vegna fjármuna sem búið er að nota, að aftengja sjálfstýringuna er að finna óhefðbundnar lausnir og hugsa út fyrir þann ramma sem við eigum öll stundum erfitt með að gera.

Mín pólitíska lína í þessu sambandi rúmast í einu orði: Jöfnuður. Og þessi lína er alls ekki sprottin úr höfði mínu. Þetta var niðurstaða kosninganna þann 25. apríl. Þetta er ósk og löngun þjóðarinnar."

Ögmundur sagði, að þegar hann talaði um jöfnuð í heilbrigðisþjónustunni vísaði hann til jöfnuðar í tvennum skilingi:

„Í fyrsta lagi geng ég út frá jöfnuði gagnvart sjúklingum. Jöfnuður gagnvart þeim þýðir að það má aldrei verða svo í okkar fámenna þjóðfélagi að einstaklingar, eða hópar, geti ekki, eða telji sig ekki geta, leitað læknisþjónustu af peningalegum ástæðum.

Í öðru lagi er það skoðun mín, að gagnvart starfsmönnum megi auka jöfnuð í kjörum manna," sagði Ögmundur.

Hann sagði, að stjórendur Landspítalans hefðu við hagræðingu reynt að  finna leiðir til að létta á byrðunum með útsjónarsemi í skipulagi vinnunnar en ekki með því að segja upp fólki. Sú leið sé samfélagslega ábyrg og feli það í sér að leita allra leiða til sparnaðar.

„Þessi leið þýðir það líka að þeir sem hafa meira afsali sér til þeirra sem hafa minna. Hagræðingarkrafan stendur nefnilega á okkur öll. Okkur líkar það ekki, en hér riðu menn um héruð, skildu eftir sig sviðna jörð og reikning sem almenningur í þessu landi þarf að greiða. Eina leið okkar út úr vandræðunum er sparnaður, ráðdeild en umfram allt jöfnuður. Hann – jöfnuðurinn – er nefnilega forsenda samkenndarinnar, sem við þurfum svo mjög á að halda.

Ég vorkenni engum manni, sem hefur bærilega afkomu að  gefa tímabundið eftir – en hin sem ekkert eiga aflögu, hafa lág laun, eða það sem er ennþá verra, hafa misst atvinnuna, þau eiga samúð mína alla. Það hefði kannski hljómað vel á árinu 2007, að mæta sparnaðarkröfunni á Landspítalann með fjöldauppsögnum, en slík aðgerð er ekki í kortunum nú. Hún er samfélagslega óábyrg og hún er hreint út sagt ósiðleg," sagði Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert