Var bara tímaspursmál

Haraldur Briem.
Haraldur Briem. Heiðar Kristjánsson

„Það var bara tímaspursmál hvenær þetta greindist hér," segir Haraldur Briem sóttvarnarlæknir um svínaflensuna H1N1 sem nú hefur greinst hér á landi. Flensan barst frá New York en sá smitaði kom til landsins fyrir helgi og veiktist svo skömmu síðar. Haraldur segir manninn hafa verið einkennalausan fram að því og hafi því ekki smitað aðra farþega á leiðinni til landsins.

Samkvæmt tilkynningu frá sóttvarnalækni leikur grunur á að fjórir til viðbótar séu smitaðir, viðkomandi tilfelli eru á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Öll tilfellin eru innan sömu fjölskyldunnar.

„Við höfum verið að kynna viðbragðsáætlanir okkar undanfarið og nú verður skerpt á því að fylgst verði með einkennum. Það er einnig full ástæða til að kanna sjúkdómstilfelli innanlands því það er spurning hvenær þetta fer að berast innanlands. Á einhverjum tímapunkti fer flensan að fá sjálfstætt líf í samfélögum þó ekki hafi borið mikið á því á Vesturlöndum. Það hefur þó verið tilfellið í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó," segir Haraldur

Hann segir að nægar lyfjabirgðir séu til á landinu sem geti unnið ágætlega á flensueinkennunum. „Við erum með lyfjabirgðir fyrir meira en þriðjung þjóðarinnar. Það er birgðamagn sem ætti að duga. Við erum þó ekki að gefa fólki fyrirbyggjandi meðferð og það er undir hverjum lækni komið hvernig meðferð hann beitir," segir Haraldur.

„Einkennin eru eins og með inflúensu yfirleitt. Hár hiti, vöðvaverkir, höfuðverkur, hálssærindi og hósti. Einkennin koma oft skyndilega en það geta líka verið væg einkenni svo fólk verður að vera vakandi fyrir þessu sérstaklega ef það er að koma frá svæðum þar sem þetta hefur greinst. Það er betra að taka sýni en ekki,“ segir Haraldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert