Fréttaskýring: Engin síld í haust og óvissa með loðnuna

Hafrannsóknastofnun telur að um þriðjungur stofns íslensku sumargotssíldarinnar hafi drepist síðastliðinn vetur vegna sýkingar. Að auki sé nýsmit í tæplega þriðjungi síldarinnar sem lifði veturinn.

Samkvæmt niðurstöðum leiðangurs Hafrannsóknastofnunar í síðasta mánuði eru ekki vísbendingar um að sýkingin sé á undanhaldi. Á öllum hrygningarsvæðunum frá Breiðafirði og suður með landinu að Hornafirði var umtalsverð sýking.

Í ljósi þessa og á grundvelli úttektar Hafrannsóknastofnunarinnar á ástandi stofnsins á sl. vori leggur stofnunin til að ekki verði veitt leyfi til veiða úr stofni íslensku sumargotssíldarinnar fyrr en í fyrsta lagi að aflokinni mælingu á sýkingarhlutfalli á síld veiddri í nót og að jákvæðari niðurstöður um sýkingarhlutfall liggja fyrir.

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofna hjá Hafrannsóknastofnun, segir að farið verði að nýju í leiðangur í byrjun október þegar síldin fari að safnast saman að lokinni hrygningu. Þá verði stærð stofnsins og útbreiðsla sýkingarinnar metin að nýju. Útlitið hafi ekki verið gott í sumar og veiðistofninn undir þeim viðmiðunarmörkum, sem Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, miði við.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segir ástand íslensku síldarinnar enn eitt áfallið, en veiðar úr þessum stofni skipti gríðarlega miklu máli fyrir þjóðarbúið. Í fyrravetur voru veidd um 152 þúsund tonn af íslensku sumargotssíldinni. Gróft reiknað megi áætla verðmæti upp úr sjó um þrjá milljarða og útflutningsverðmætið sex til átta milljarða.

„Ef við lítum á samfélagið hér í Eyjum þá erum við með um þriðjung kvótans,“ segir Sigurgeir. „Aflaverðmæti bátanna gæti verið yfir einn milljarð, laun sjómanna í Eyjum væru þá hátt í 300 milljónir á síldarvertíðinni. Í heildarskattgreiðslur færu um 130 milljónir og þar af um 40 milljónir í útsvar til bæjarins. Þetta eru gríðarleg verðmæti sem dreifast um allt samfélagið hér og þannig er þetta á mörgum stöðum um landið.“

Hann segist reyndar ekki hafa trú á að þriðjungur síldarinnar hafi drepist og telur áhrif sýkingarinnar ekki fullrannsökuð. Auk þess hafi stofninn verið vanmetinn.

Erfiður vetur hjá mörgum

Sigurgeir segir að búast megi við erfiðum vetri hjá mörgum sem tengjast veiðum á síld og loðnu. Reyndar telur hann að loðnan gefi sig á næstu vertíð og telur að hún hafi gengið upp á grunnið þó svo að hún hafi ekki fundist.

Það er ekki í samræmi við mælingar og rannsóknir vísindamanna, sem ekki hafa talið hægt að gefa út upphafskvóta. Í ástandsskýrslu Hafró segir um loðnustofninn:

„Leggur Hafrannsóknastofnunin til að loðnuveiðar verði ekki heimilaðar fyrr en tekist hefur að mæla stofninn og niðurstaðan gefi til kynna að óhætt sé að leyfa umtalsverðar veiðar að teknu tilliti til þess að 400 þúsund tonn verði skilin eftir til hrygningar í mars.“

Verðmæti tapast

Útgerðarmenn kepptust við sem mest þeir máttu fyrri hluta sumars að ná sem mestu af 112 þúsund tonna makrílpotti. Fiskurinn var að miklu leyti settur í bræðslu þó svo að verðmætið hefði verið enn meira ef hann hefði verið veiddur síðar og á skipulegri hátt með vinnslu til manneldis í huga.

„Makríllinn var veiddur í sóknarstýrðu kerfi, en aflamarkskerfi, eins og við búum við í flestum öðrum veiðum, hefði gefið 6-8 milljörðum meira verðmæti í þjóðarbúið“ segir Sigurgeir Brynjar. „Það sér það hver maður að við höfum hvorki leyfi til né efni á að haga okkur svona. Ef síld verður ekki veidd í haust vegna sýkingar þá erum við að tapa annarri eins upphæð. Við þurfum Íslendingar að nýta öll þau verðmæti sem við getum af landsins gæðum. Það er kominn tími til að vinna í skynsömum lausnum, “ segir Sigurgeir Brynjar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert