Formannsslagur hjá ÖBÍ

Guðmundur Magnússon, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í bandalaginu á aðalfundi þess í október. Fyrr í dag lýsti Sigursteinn Másson, fyrrverandi formaður ÖBÍ yfir framboði sínu til formennsku.

Ljóst er að tekist verður á um formennsku í Öryrkjabandalagi Íslands á aðalfundi bandalagsins 24. október næstkomandi. Halldór Sævar Guðbergsson, sem kjörinn var formaður ÖBÍ á aukaaðalfundi um miðjan febrúar 2008 eftir að Sigursteinn Másson sagði af sér formennsku, gefur ekki kost á sér til endurkjörs.

Sigursteinn lýsti í morgun yfir framboði og nú hefur Guðmundur Magnússon, varaformaður ÖBÍ gert hið sama.

Guðmundur hefur setið í framkvæmdastjórn ÖBÍ frá árinu 2006 fyrst sem ritari en hann hefur gegnt varaformannsembætti frá síðasta aðalfundi.
 
„Við lifum á alvarlegum tímum, þar sem þjóðin er að ganga í gegnum miklar hremmingar. Mikilvægt er að standa vaktina svo ekki verði alvarlegt bakslag í þeim réttindum sem náðst hafa á undanförnum áratugum. Ekki er síður áríðandi að fylgja eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um rétt fólks með fötlun og þeim tækifærum sem hann bíður upp á til hagsbóta fyrir fatlaða og langveika. Má þar nefna fjölmörg atriði, svo sem aðgengi, lögleiðingu táknmáls, koma á notendastýrðri þjónustu o.s.frv., o.s.frv. Af nógu er að taka. Nú er í bígerð að einfalda almannatryggingakerfið með mögulegum breytingum á örorkumati og er þá mjög áríðandi að ÖBÍ komi þar að með gagnrýnum, uppbyggilegum hætti, undir kjörorðinu: Ekkert um okkur án okkar,“ segir Guðmundur Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert