Ögmundur: Jákvæðar breytingar en of snemmt að lýsa yfir samþykki

Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna.
Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir að breytingar á Icesave-samkomulaginu sem kynntar voru í dag séu mjög jákvæðar. Hann er þó ekki tilbúinn til að lýsa því yfir hvort hann samþykki frumvarpið á Alþingi. „Ég á eftir að skoða málið nánar og geng óbundinn til þeirrar afgreiðslu eins og ég hef lýst yfir áður,“ sagði hann við Fréttavef Morgunblaðsins.

„Ég lít svo á að málið hafi tekið mjög jákvæðum breytingum frá því mér voru sýnd drög að samkomulaginu, í aðdraganda þess að ég vék úr ríkisstjórn. Þá var lagalegi fyrirvarinn úti þannig að þótt Íslendingar viðurkenndu ekki greiðsluskyldur sínar myndu þeir engu að síður undirgangast kröfur Breta og Hollendinga. Það var fullkomlega óásættanlegt að mínu mati,“ segir Ögmundur.

„Nú hafa Hollendingar og Bretar í reynd staðfest að þeim er kunnug sú afstaða Íslands að viðurkenna ekki lagalega greiðsluskyldu sína og falli dómur Íslandi í hag kemur málið að nýju upp á samningaborðið - það er algert grundvallaratriði í mínum huga að þessi skilningur sé inni í samkomulaginu, enda einfaldlega spurning um grundvallaratriði réttarríkisins.“

Spurður hvort hann muni samþykkja frumvarpið eins og það lítur út núna svarar Ögmundur: „Ég á eftir að skoða málið nánar áður en ég tek afstöðu og geng óbundinn til þeirrar afgreiðslu eins og ég hef lýst yfir áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert