Mannréttindi á ekki að taka af fólki

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/RAX

„Ég veit ekkert um innihald þessarar deilu en mannréttindi á ekki að taka af fólki,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um væntanlega lagasetningu á verkfall flugvirkja. Gylfi segist þó ekki geta tekið undir launakröfur flugvirkja.

„Alþýðusambandið mun alltaf vera á móti því að stjórnvöld setji lög á kjarasamninga. Það er bannað samkvæmt mannréttindasáttmála og vinnumálasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Gylfi. 

Hann minnir á að ekki sé langt um liðið frá því ASÍ fékk bæði Mannréttindadómstólinn og þing Alþjóða vinnumálastofnunarinnar til að snupra stjórnvöld fyrir að hafa afskipti af kjarasamningum.

Flugvirkjar eru ekki aðilar að Alþýðusambandi Íslands. Gylfi segist ekki geta tekið undir launakröfur flugvirkja og segir þá hafa sömu hagsmuni af því og aðrir að náð verði tökum á ástandinu í efnahagslífinu.

„Mér finnst kröfugerð þeirra og framganga ekki einkennast af mikilli samstöðu. Það var kannski ástæðan fyrir því að þeir fóru úr Alþýðusambandinu að þeir vildu ekki axla neina ábyrgð á því. Ég er ekki með neinum hætti að styðja kröfugerð flugvirkja né heldur flugumferðarstjóra á sínum tíma en ég er algerlega mótfallinn því að sett verði lög á kjarasamninga,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert