Flugvöllum mögulega lokað

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Árvakur

 Miðað við spár í dag um öskudreifingu á morgun er útlit fyrir að loka þurfi bæði Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugstoða, segir að verið sé að funda um þessi mál. Hún bendir fólki á að fylgjast með á www.flugstod.is.

Icelandair mun flýta flugi félagsins til Parísar, London, Kaupmannahafnar og Manchester/Glasgow, Osló/Stokkhólms í fyrramálið  og verður brottför kl. 5 vegna yfirvofandi lokunar Keflavíkurflugvallar. Öðrum flugum á morgun hefur verið aflýst og ný flug sett upp í staðinn.

Óvissa er um það hvernig flugi Icelandair til og frá landinu verður háttað á næstunni og eru farþegar hvattir til þess að fylgjast með fréttum og upplýsingum um flugáætlun, komu og brottfarartíma fluganna, m.a. á www.icelandair.is. Þjónustuver Icelandair verður opið til miðnættis.

Flugi félagsins í fyrramálið frá Boston, New York og Seattle í Bandaríkjunum verður stefnt til Glasgow í Skotlandi og þar verður sett um tengistöð. Síðdegisflugi frá Evrópu til Íslands verður sömuleiðis beint til Glasgow. Til þess að flytja farþega milli áfangastaða félagsins og Íslands verða sett upp flug milli Glasgow og Akureyrar.

Icelandair hefur undanfarna daga unnið að viðbúnaðaráætlun ef til þess kæmi að Keflavíkurflugvelli yrði lokað vegna öskufallsins frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Í undirbúningunum hefur verið lögð áhersla á að halda starfsemi félagsins gangandi, halda opnum flugsamgöngum milli Íslands og umheimsins og veita viðskiptavinum þjónustu. Áhöfnum og öðrum starfsmönnum hefur verið flogið til Bretlands og eru tilbúnir til starfa þegar þörf krefur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert