Fréttaskýring: Þórsmörkin grænkar í skugga flóðahættu

Þórsmörk grænkar í skugga flóðahættu
Þórsmörk grænkar í skugga flóðahættu mbl.is/Rax

Í dag eiga að hefjast áætlunarferðir inn í Þórsmörk, eina vinsælustu náttúruperlu á Íslandi bæði meðal íslenskra og erlendra ferðamanna.

Þótt ásjóna Þórsmerkur beri vott um eldgosið sem staðið hefur mánuðum saman í nágrenninu virðast þó allir sem hafa farið þangað síðustu daga til að meta aðstæður sammála um að þangað eigi ferðamenn enn fullt erindi til að njóta einstakrar náttúru. Flóðahættan sem varð ljós nú fyrir helgi vegna vatnssöfnunar í toppgíg Eyjafjallajökuls hefur þó sett strik í reikninginn og enn á ný ríkir óvissa um ferðaþjónustuna í Básum í Goðalandi á vegum Útivistar, Ferðafélags Íslands í Langadal og Farfugla í Húsadal.

Almannavarnir ákváðu fyrir helgi að loka fyrir almenna umferð inn í mörkina eftir að vísindamenn urðu þess varir að mikið vatn hafði safnast saman í gígnum.

Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar, segir að verði langvarandi lokanir á almennri umferð inn í Þórsmörk vegna flóðahættu verði það mikið bakslag fyrir félagið. Að sumri til gisti að jafnaði 500-1.000 manns á tjaldsvæðunum í Básum. „Svo bætist skálinn við og dagsferðatraffík þegar ferðaskrifstofur koma þarna með hópa. Svo ég hugsa að fjárhagslegt tap fyrir okkur gæti orðið hálf milljón um hverja helgi.“ FÍ hefur sagt að tap þess gæti numið allt að 30 milljónum verði lokað fyrir umferð næsta mánuðinn.

Græn og falleg tjaldsvæði

Bæði Útivist og Ferðafélag Íslands eru samhljóða um að bókanir á gistingu í Þórsmörk hafi farið hægt af stað í vor og talsvert verið um afbókanir. Að flóðahættunni undanskilinni eru þó flestir sammála um að engin ástæða sé til annars en að ferðamenn geti notið sumarsins í Þórsmörk. Gróðurinn virðist ætla að braggast ágætlega og mörkin því tekin að grænka, ekki síst eftir rigningu síðustu viku.

„Það er ljóst að þessi gróskumikli gróður í Þórsmörk bindur öskuna heilmikið og þetta lítur miklu betur út,“ segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri. Íslenska birkikjarrrið þoli náttúruáföllin vel, umfram annan gróður. „Trjágróðurinn stenst vel svona mikið öskufall, en lággróðurinn á miklu erfiðara uppdráttar. Auðvitað er þarna mjög mikið öskufall, en það er búið að vinna mikið hreinsunarstarf hjá þessum ferðaþjónustuaðilum þannig að ég hvet alla til að fara inn í Þórsmörk þegar yfirvöld opna veginn aftur. Það er hverjum manni hollt að sjá þessa stórbrotnu náttúru við þessar aðstæður því þetta er mjög tilkomumikið og sérstakt.“

Tjaldstæði eru og verða opin við skálana bæði í Langadal og Básum í sumar og er grasið að sögn iðagrænt þótt nokkur aska sé í sverðinum. Þá ætlar Útivist að halda sínu striki í gönguferðum yfir Fimmvörðuháls, og FÍ ætlar að bjóða dagsgöngur að gömlu gosstöðvunum. Skúli segir ekki annað í stöðunni en að gera það besta úr óvissuástandinu.

„Þótt þetta sé óþægilegt og vont fyrir okkur þá höfum við skilning á því að þeir aðilar sem bera ábyrgð á lífi og limum fólks í náttúruhamförum stígi varlega til jarðar.Við erum afskaplega ánægð með að þeir skuli vera tilbúnir að koma til móts við okkar þarfir með því að hleypa þó skipulagðri umferð inn í Þórsmörk undir eftirliti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert