Bankar fara að tilmælum Samtaka fjármálafyrirtækja

Allir viðskiptabankarnir þrír hafa nú tilkynnt, að þeir ætli að verða við tilmælum Samtaka fjármálafyrirtækja og bjóða viðskiptavinum sínum, sem eru með gengistryggð íbúðalán, að greiða 5.000 krónur á mánuði af hverri milljón upphaflegrar lánsupphæðar þar til óvissu um gengisbundin lán verði eytt með dómum.

Samkvæmt þessu býðst þeim, sem tók 10 milljóna króna lán, að greiða 50 þúsund krónur í afborgun af láninu á mánuði. Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum, að viðskiptavinum banka og sparisjóða bjóðist sömu kjör þegar komi að föstum greiðslum af lánum og hafi viðræður um þau farið fram með leyfi Samkeppniseftirlitsins. 

Samkeppniseftirlitið hafi fallist á að þessi kjör megi allir bjóða til 1. nóvember, en eftir þann tíma verði að sækja um framlengingu hafi dómstólar þá ekki eytt óvissu um álitamál.

Hluti fasteignalána Landsbankans í erlendri mynt verður endurreiknaður samkvæmt dómi Hæstaréttar og tilmælum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Landsbankans lækkar höfuðstóll þeirra fasteignalána sem falla undir dóminn um 25% - 40%, breytilegt eftir því hvenær lán voru tekin og í hvaða mynt. Dæmi eru um lægri lækkun höfuðstóls lána sem tekin voru eftir mestu gengisfellingarnar, en einnig dæmi um mun meiri lækkun í þeim myntum sem þróast hafa á versta veg fyrir lántaka.

Bankinn vekur athygli á því að óvissa ríkir um skattaleg áhrif þessara breytinga.

Tilkynning Landsbanka

Tilkynning Íslandsbanka

Tilkynning Arion banka

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert