Unnið að því að gera tundurduflið óvirkt

Tundurdufl. Mynd úr safni.
Tundurdufl. Mynd úr safni.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eru nú um borð í togbátnum Skinney að skoða tundurdufl sem báturinn fékk í veiðarfærin við botnvörpuveiðar sunnan við Snæfellsjökul. Það verður gert óvirk áður en farið verður með duflið í land.

Skv. upplýsingum frá Gæslunni verður forsprengjan fjarlægð áður en siglt verður með tundurduflið í land á Rifi þar sem sprengjunni verður eytt á afskekktum stað

Tveir sprengjusérfræðingar skoða nú duflið á þilfari skipsins. Ekki liggur fyrir hversu lengi það tekur að fjarlægja forsprengjuna.

Að sögn Gæslunnar er ávallt hætta á ferð þegar tundurdufl eða gamlar sprengjur finnast. Ekki liggur fyrir hvort búið sé að flytja áhöfn Skinneyjar í annan bát á meðan sérfræðingarnir athafna sig.

Skipverjar um borð í Skinney tilkynntu um duflið um kl. hálf átta í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert