Fréttaskýring: Alþingi ákveður breytingar á máli

Atkvæði greidd um hvort senda ætti mál Geirs til Landsdóms
Atkvæði greidd um hvort senda ætti mál Geirs til Landsdóms mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alþingi samþykkti í fyrradag að höfða mál á hendur Geir H. Haarde fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð í aðdraganda efnahagshrunsins. Ekki hefur verið ákveðið hver sækir málið fyrir hönd Alþingis en Morgunblaðið greindi frá því í gær að líklega yrði saksóknari kosinn á Alþingi í næstu viku. Samkvæmt lögum um landsdóm er saksóknari bundinn við þau ákæruatriði sem tíunduð eru í þingsályktun Alþingis.

Sigurður Líndal lagaprófessor segir að saksóknari geti ekki ákveðið að falla frá málshöfðun, til þess þurfi ályktun Alþingis. „Ef saksóknari kemst að þeirri niðurstöðu, þegar málið er rannsakað fyrir dómi, að kæran sé á sandi reist eða þar séu atriði sem séu líklegri til sýknunar en sakfellingar. Þá er það mín skoðun að hann eigi að vísa málinu aftur til Alþingis og segja því að nú sé landsdómur búinn að rannsaka málið og hann leggi til að ályktuninni verði breytt eða hún afturkölluð,“ segir Sigurður sem kveður þetta einnig eiga við um útgáfu framhaldsákæru ef veigameira brot kemur í ljós við rannsókn málsins.

„Alþingi verður að gera þetta. Þetta held ég að sé kjarni málsins. Ef Alþingi vill halda þessu áfram, þó að eitthvað komi í ljós við rannsókn málsins sem sýnir að þetta sé ekki mjög alvarlegt þá mundi Alþingi væntanlega draga þetta til baka að tillögu saksóknara.“

Frábrugðin meðferð sakamáls

Málsmeðferð fyrir landsdómi er heldur frábrugðin meðferð sakamáls fyrir almennum dómstólum þar sem rannsókn málsins fer fram fyrir landsdómi en ekki hjá saksóknara áður en ákæra er gefin út.

Sigurður telur því saksóknara geta lent milli steins og sleggju ef Alþingi neitar að draga ákæruna til baka þó að saksóknari telji hana vera tilefnislausa. „Landsdómur á að rannsaka málið. Það var spurt einhvern tímann í byrjun hvort saksóknari, ef hann sér engan flöt á málinu, ætti að flytja málið til enda, alveg gegn allri sannfæringu sinni. Það væri nú heldur óþægileg aðstaða. Ef ég væri nú saksóknari þá myndi ég nú biðja Alþingi um að skoða málið betur og segja að mér væri þetta um megn að fylgja þessu eftir.“

Bíða eftir dómaralista

Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde fyrir landsdómi, kveðst ekki gera sér grein fyrir hversu langan tíma réttarhöld landsdóms taki.

„Nei, það er eiginlega ómögulegt að segja. Það fer mikið eftir málatilbúnaði ákærandans hvernig það er. Þetta er ugglaust frekar þunglamalegt.“

Jafnframt segist hann ekki hafa kannað mögulegt vanhæfi dómara. „Ég veit ekki til þess að það sé neitt farið að skoða það. Ég reikna með því að dómurinn sjálfur muni taka afstöðu til þess í fyrstu umferð. Þannig að það er ekki fyrr en endanlegur dómaralisti liggur fyrir, þegar búið er að ákveða hvaða varamenn komi inn, sem það yrði hugsanlega skoðað.“

Brynjar Níelsson, formaður lögmannafélags Íslands, segir lög um landsdóm hafa verið samþykkt til að beita einungis í sérstökum tilfellum. „Þingmenn hugsuðu svo ekkert um að breyta reglunum í samræmi við breytt réttarfar í landinu, því það hefur gjörbreyst frá árinu 1963. Menn voru ekkert að hugsa um það '63 en ákveða samt að halda þessu en ekki til þess að refsa mönnum fyrir að taka vitlausar efnahagslegar eða pólitískar ákvarðanir. Það var ekki hugsunin eins og núna er með því að flokka þetta undir refsiverða háttsemi. Það er alger nýjung í mínum huga,“ segir Brynjar sem telur að menn megi líta til ákvarðana er teknar voru í kringum Icesave-málið til samanburðar.

„Ráðherrar í núverandi stjórn tóku ákvörðun í þeim samningaviðræðum, þrátt fyrir að það séu lögfræðiálit fyrir því að við eigum ekki að greiða. Samt munu þeir ráðherrar segja, ef þeir verða ákærðir, að þeir hafi metið þetta sem hag ríkisins í erfiðri stöðu. Samskonar vörn er Geir með núna. Hefði hann tekið aðrar ákvarðanir í byrjun febrúar, sett aðrar stjórnir í bankana, hefðu menn hugsanlega gert áhlaup á bankana. Hvað hefði gerst þá? Þá hefði hann verið ákærður fyrir þá ákvörðun.“

Ekki hugsað fyrir pólitík

Brynjar telur að færa megi rök að því að landsdómi sé nú beitt í pólitískum tilgangi. „Landsdómur var ekki hugsaður fyrir tilvik sem þessi. Þetta er bara pólitískt uppgjör en slíkt á ekki að fara fram í refsimáli. Alþingi finnst það samt allt í lagi. Pólitískt uppgjör er allt annað en að menn beri refsiábyrgð.“

Brynjar telur að það muni reynast Alþingi erfitt að finna mann í starf saksóknara. „Saksóknari þarf að halda því fram fyrir dómi, fyrir framan dómarana, að Geir Haarde hefði átt að taka einhverjar aðrar pólitískar ákvarðanir eða gera eitthvað þegar vísbendingar bárust að utan um að bankakerfið væri í hættu. Það er líka ákvörðun að gera ekki neitt og segja að ef eitthvað er gert þá fer þetta strax á hausinn o.s.frv. Saksóknari þarf að segja að heill ríkisins hafi verið í hættu vegna þess að Geir sagði að það ætti að gera þetta eða hitt. Þú getur sagt það um hverja einustu pólitísku ákvörðun sem menn taka,“ segir Brynjar sem telur óeðlilegt að ákæra sé gefin út áður en rannsókn máls sé lokið miðað við nútímasakamálaréttarfar. „Menn kalla þetta ákæru en nú fer fram fyrir réttinum einhver rannsókn. Við meðferð venjulegra sakamála í dag á rannsókn að ljúka áður en ákæra er gefin út.“

Pólitískt uppgjör

Landsdómur var ekki hugsaður fyrir tilvik sem þessi. Þetta er bara pólitískt uppgjör en slíkt á ekki að fara fram í refsimáli. Alþingi finnst það samt allt í lagi. Pólitískt uppgjör er allt annað en að menn beri refsiábyrgð

Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Samfylkingarinnar, staðfesti í gærkvöldi að nokkuð hefði verið um úrsagnir úr flokknum í gær og í fyrradag en vildi ekki gefa upp hversu margir hefðu sagt sig úr flokknum. Aðspurð hvaða ástæður fólk gæfi upp sagðist hún ekkert geta sagt um það en sagði aðeins að skiptar skoðanir væru um ákvörðun Alþingis um ákærur til landsdóms.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert