„Fólk bíður eftir eftir nýju afli“

Einn mótmælenda við Alþingishúsið.
Einn mótmælenda við Alþingishúsið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Maður heyrir það í kringum sig að fólk bíður eftir nýju stjórnmálaafli. Besti flokkurinn lagði grunninn. Nú er komið að alvörunni. Fólkið vill að það sé eitthvað gert í þessu landi,“ segir Ægir Geirdal, einn mótmælenda við Alþingishúsið í nótt. 

„Ég vil að stjórnvöld fari frá. Ég lagði til í bréfi til Hagsmunasamtaka heimilanna í fyrradag að hér yrði stofnaður nýr flokkur sem héti Hvatning og myndi leggja höfuðáherslu á fjölskylduna og heimilin.

Fyrirtækin myndu koma með ef við fengjum eitthvað af heimilunum til liðs við okkur. Við þurfum að hætta þessari vitleysu að þurfa alltaf hreint að vera að basla. Pabbi minn og mamma, þau þurftu að basla. Ég er búinn að basla. Dóttir mín, hún er að basla. Og ég sé fram á að barnabörnin og barnabarnabörnin þurfi að basla. Þetta gengur ekki á Íslandi.“

Jóhanna hefur brugðist

- Hverja kaustu í kosningunum í apríl í fyrra?

„Ég asnaðist til að greiða Samfylkingunni atkvæði mitt. Hún hefur staðið sig gjörsamlega ömurlega. Jóhanna hefur ekki munað eftir því hverju hún var búin að lofa hérna áður fyrr sem félagsmálaráðherra. Það er ekki til í dæminu.

Hún var valin í 2. sæti yfir 10 valdamestu konur heims. Hennar verður minnst fyrir það eitt að hún er fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann. Það er allt í lagi að vera samkynhneigður og stoltur af því út af fyrir sig en það er andskoti hart að forsætisráðherra á Íslandi sé bara þekktur fyrir að vera samkynhneigður, ekkert annað.“

Nýtt framboð fyrir jól?

- Nú er október genginn í garð. Viltu kosningar fyrir jól?

„Auðvitað myndi ég vilja það en þá verður komið fram nýtt stjórnmálaafl. Stjórnmálaafl sem snýst ekki um völd, stjórnmálaafl sem er hreyfing fyrir fjöldann. Það er alveg pottþétt að það komi fram nýtt afl. Það er enginn vafi á því. Maður heyrir það í kringum sig að fólk bíður eftir eftir nýju stjórnmálaafli. Besti flokkurinn lagði grunninn. Nú er komið að alvörunni. Fólkið vill að það sé eitthvað gert í þessu landi.

Við þurfum miklu, miklu meiri jöfnuð í þessu þjóðfélagi. Það gengur ekki á Íslandi með öllum þessum auðlindum sem við höfum að fjöldi fólks, 20.000 manns, sé án vinnu um jólin.“

Ægir kveðst ekki hafa haldið fylgi við einn flokk alla tíð. Vandinn sé svo knýjandi að tal um flokkslínur eigi ekki við.  

„Það er bara rugl að það séu bara kommar sem eru að mótmæla. Heldurðu ekki að íhaldsmenn séu atvinnulausir líka? Ég hef kosið ýmsa flokka eftir því hvar ég trúði loforðunum. Nú gengur þetta ekki lengur. Þetta þýðir ekki.“

Hefði viljað sjá fleiri 

Ægir undraðist að í ljósi bágrar stöðu margra heimila að ekki fleiri skyldu mæta á Austurvöll en ætla má að um hundrað manns hafi þar verið saman komnir frá og með miðnætti og til um hálf eitt leytið í nótt.

„Við verðum að standa saman fólkið til að fá botn í þessa vitleysu sem er búin að vera. Það er hálf ömurlegt að hugsa til þess að hérna séu rétt um hundrað manns, ef þeir ná því þá. Það er fyrirsjáanlegt að 20.000 manns muni sjá fram á atvinnulaus jól. Hér eru um hundrað manns. Hvar er allt þetta fólk?“ spurði Ægir sem tók sér stöðu við dyr Alþingishússins.

Stjórnvöld fengu kaldar kveðjur á borða við styttuna af Jóni …
Stjórnvöld fengu kaldar kveðjur á borða við styttuna af Jóni Sigurðssyni. Ljósmynd/Baldur Arnarson
Ægir Geirdal tók sér stöðu við Alþingishúsið.
Ægir Geirdal tók sér stöðu við Alþingishúsið.
Ægir Geirdal.
Ægir Geirdal. Ljósmynd/Baldur Arnarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert