Opnunartími vínveitingahúsa styttur

Samþykkt var á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag, að stytta opnunartíma vínveitingahúsa í miðborginni, sem mega hafa opið til klukkan 5:30, um klukkustund í tveimur áföngum. 

Um er að ræða tillögu frá fulltrúum Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Samkvæmt henni verður opnunartíminn styttur um hálftíma um næstu áramót, það er til klukkan 5, og að sex mánuðum liðnum aftur um hálftíma, til kl. 4.30.  Farið verður yfir reynsluna af breytingunni eftir ár.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins létu bóka á fundinum, að það vanti áfengisstefnu í Reykjavíkurborg, og benda á að um bann við reykingum á vínveitingastöðum ríki almenn ánægja. „Liggur því við að næsta rökrétta skref verði að banna áfengi inni á þessum stöðum, þar sem áfengisneysla hefur margar og alvarlegar afleiðingar í för með sér," segir í bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert