Neita að fjarlægja geirfuglinn

Geirfuglinn á Reykjanesi.
Geirfuglinn á Reykjanesi.

Menningarráð Reykjanesbæjar ætlar ekki að fjarlægja listaverkið geirfuglinn eftir Todd McGrain sem stendur við Valahnjúk í Reykjanesbæ, en Ólöf Nordal myndlistarmaður sendi ráðinu bréfi þar sem hún spurðist fyrir um staðsetningu á verkinu. Listaverk af geirfugli eftir Ólöfu hefur í 12 ár staðið í flæðarmálinu við Skerjafjörð í Reykjavík.

Í byrjun september var afhjúpuð bronsstytta eftir bandaríska listamanninn Todd McGrain af geirfugli, við Valahnjúk í Reykjanesbæ, til móts við Eldey. Styttan er hluti af myndlistarverkefni McGrain sem ber heitið The Lost Bird Project og samanstendur af styttum af fimm útdauðum fuglategundum og þar af þremur styttum af geirfuglinum. Styttan á Reykjanesi er ein þessara þriggja og sú eina sem McGrain setti upp á Íslandi.

Listakonan Ólöf Nordal gerði styttu af geirfugli árið 1998 sem stendur í flæðarmálinu við Skerjafjörð í Reykjavík. Sú stytta er eign Reykjavíkurborgar, Listasafns Reykjavíkur, og var hluti af útisýningu Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Strandlengjunni, sem stóð yfir frá sumri árið 2000 fram í janúar 2001. 

Í fundargerð menningarráðs Reykjanesbæjar segir að í bréfi frá Ólöfu Nordal sé spurst fyrir um leyfi fyrir staðsetningu á listaverki Todd McGrain og óskað eftir að það verði afturkallað hið fyrsta. Ráðið hafnaði erindinu.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is var bréf Ólafar sent til Todd McGrain og háskólans í Bandaríkjunum þar sem hann starfar.

Geirfugl Ólafar Nordal í Skerjafirði.
Geirfugl Ólafar Nordal í Skerjafirði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert