Áfram gott samstarf kirkju og skóla

Neskirkja í Reykjavík.
Neskirkja í Reykjavík. Þorkell Þorkelsson

Á milli 50 og 60 skólastjórar og prestar komu saman til fundar í Neskirkju í dag til að fjalla um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur um samskipti skóla og trúfélaga. 

Að því er kemur fram á vef Þjóðkirkjunnar var formönnum mannréttindaráðs og menntaráðs Reykjavíkur boðið á fundinn en þáðu þeir ekki boðið.

Dr. Sigurður Pálsson fyrrverandi prestur og kennari sagði á fundinum að svo fremi að samstarf skóla og kirkju væri á forsendum skólans og í samráði við foreldra ætti það rétt á sér. Þá nefndi hann að ekki væri ágreiningur um það að hlutverk skóla væri að fræða en ekki að boða trú. Þá forsendu skólans vildi kirkjan virða. Hins vegar væri deilt um hvað skyldi kalla trúboð og hvað ekki.

Að sögn Ingibjargar Jósefsdóttur, skólastjóra Hagaskóla og stjórnarmanns í Skólastjórafélagi Reykjavíkur, var tilgangur fundarins að skiptast á skoðunum. Flestir þeir sem tóku til máls hafi verið fylgjandi því að gott samstarf yrði áfram á milli skóla og kirkju.

Kallað hafi verið eftir leiðbeinandi reglum um samstarfs kirkju og skóla á síðustu árum. Tillagan nú hafi verið svar sem sumum hafi líkað og öðrum ekki.

„Ég held að umræðan um þetta mál hafi farið á heldur mikið flug. Ég er ekki viss um að allir sem hafa tekið til máls í sambandi við þessa tillögu hafi alveg kynnt sér hana. Kannski hefur líka verið misskilningur á milli manna og óljós skilaboð,“ segir Ingibjörg.

Hún segir jákvætt að vinnu mannréttindaráðs að tillögunni hafi verið frestað. Frestunin sé til að skoða betur þær athugasemdir sem hafa borist við tillöguna.

Frétt á vef Þjóðkirkjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert