Búast við hlaupi hvenær sem er

Hlaup í Skeiðará eru stundum stór.
Hlaup í Skeiðará eru stundum stór. Rax / Ragnar Axelsson

„Það er mikið vatn í Grímsvötnum og það getur komið hlaup hvenær sem er,“ segir Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður á Veðurstofu Íslands, en hann er núna staddur á Skeiðarársandi að yfirfara mælitæki. Ekki hefur komið stórt hlaup úr Grímsvötnum síðan 2004.

Jarðskjálfti af stærðinni 3 varð í Grímsvötnum í Vatnajökli í nótt. Órói kom fram á mælum á Grímsfjalli í síðustu viku . Gunnar sagði erfitt að túlka þennan óróa, en jarðvísindamenn fylgist vel með því sem er að gerast þarna.

„Við vildum alla vega hafa mælitækin í lagi,“ sagði Gunnar. Jökulár á Skeiðarársandi breyta oft um farveg og því er hætt við að sjálfvirkir mælar sem settir eru í árnar komist á þurrt þegar árnar finna sér nýja leið til sjávar.

Gunnar sagðist ekki geta útilokað að vatn væri farið að leka úr Grímsvötnum í Gígju, en leiðni í ánni er nokkuð há. Hærri leiðni getur þýtt að hlaupvatn sé í ánni. Hann sagði að það væri ekki vöxtur í ánni, en rennslið hefði ekki minnkað eins og búast hefði mátt við eftir að frysti.

Vatnshæð í Grímsvötnum er þannig að búast má við hlaupi hvenær sem er. Eftir eldgosið í Grímsvötnum breyttust aðstæður á þann hátt að segja má að sírennsli hafi verið niður á Skeiðarársand. Síðasta stóra hlaup úr Grímsvötnum kom 2004, en síðan hafa hlaupin verið mjög lítil.

Hlaup úr Grímsvötnum eru stór viðburður. Gunnar sagði að hámarksrennsli í síðasta Grímsvatnahlaupi hefði verið heldur meira en í flóðinu frá Eyjafjallajökli í sumar eða yfir 3.000 rúmmetrar á sekúndu.

Jarðeðlisfræðingar telja margir að líkur á eldgosi aukist verulega þegar hlaupi úr Grímsvötnum. Þá létti þrýstingi sem auðveldi gosefnum leið upp á yfirborðið. Einar Kjartansson, jarðeðlisfræðingur, sagði í samtali við mbl.is að það væri alls ekki hægt að útiloka að það fari að gjósa í Grímsvötnum á næstunni.  Vel væri fylgst með eldstöðinni.

Gunnar Sigurðsson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni, við vatnamælingar í Markarfljóti í …
Gunnar Sigurðsson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni, við vatnamælingar í Markarfljóti í sumar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert