Ört dregur úr rennsli Gígju

Rennsli Gígjukvíslar við brúna á þjóðvegi 1 var komið niður í um 1.000 rúmmetra á sekúndu um kl. 10.30 í morgun. Grímsvatnahlaupið náði hámarki eftir miðjan dag í gær og var þá líklega í kringum 3.000 rúmmetrar á sekúndu. Hratt hefur því dregið úr rennslinu.

Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður hjá Veðurstofu Íslands, sagði að fyrstu merki um að hlaup væri að hefjast hefði verið aukin leiðni sem mældist í ánni á föstudaginn var. Áin var lítið tekin að vaxa á laugardaginn var.

Veðurstofan staðfesti á sunnudag að Grímsvatnahlaup væri hafið og óx rennslið hröðum skrefum frá því. Gunnar taldi að ef rennslið sjatnar áfram jafn hratt og það hefur gert frá því í gær verði það orðið venjubundið á 3-4 dögum. Þá gæti rennslið verið á bilinu 30-50 rúmmetrar á sekúndu, allt eftir veðri og úrkomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert