Heldur eftir 65.000 krónum af lífeyrinum

Kristín H. Tryggvadóttir.
Kristín H. Tryggvadóttir.

Kristín H. Tryggvadóttir er 74 ára lífeyrisþegi sem þarf að lifa á jafnvirði lágmarkslífeyris, eða 65 þúsund krónum á mánuði, þrátt fyrir að hafa á langri starfsævi unnið fyrir eftirlaunum sem nema að nafninu til á fimmta hundrað þúsund krónum. Hún hefur ritað fjórum ráðherrum, forsætis-, fjármála-, innanríkis- og velferðarráðherra, bréf þar sem hún spyr einfaldlega: „Er þetta sanngjarnt?“

Kristín starfaði í fjörutíu ár hjá ríkinu, m.a. sem kennari, fræðslufulltrúi hjá BSRB, deildarstjóri og skólastjóri. Hún býr nú á Hrafnistu í Hafnarfirði en þangað neyddist hún til að flytja eftir átta mánaða sjúkrahúsvist vegna skyndilegrar lömunar.

Kristín greiðir 120 þúsund krónur á mánuði í skatta, um 240 þúsund í dvalarkostnað til Hrafnistu og á síðan 65 þúsund krónur afgangs sem þurfa að duga fyrir „öllum óþarfa“ eins og hún orðar það, t.d. síma, sjónvarpi, blöðum, hársnyrtingu, fótsnyrtingu, skóm og fatnaði, sælgæti og gjöfum, svo ekki sé minnst á gleraugu, heyrnartæki og tannlæknakostnað.

„Mér finnst ég vera látin greiða ansi mikið, fyrst í skattana og svo þegar ég flyt á Hrafnistu þá greiði ég á þriðja hundrað þúsund fyrir þá aðstöðu sem ég hef þar,“ segir Kristín. Hún segir sér líða ágætlega og ber Hrafnistu vel söguna en finnst ósanngjarnt að eftir að hafa meðvitað lagt hart að sér alla ævi til að fá góðan lífeyri hafi hún ekki meira á milli handanna.

Hart að lífeyrir sé hirtur

Þeir sem hafa tekjur undir 65 þúsund krónum á mánuði greiða engan dvalarkostnað til sjúkrastofnana eða dvalar- og hjúkrunarheimila en hámarksgreiðslan er um 294 þúsund á mánuði. Kristínu finnst hart að allur sá lífeyrir sem hún vann fyrir sé hirtur af henni, sérstaklega þar sem hún sé nú þegar búin að skila sínu í formi skatta alla sína starfsævi.

Spyr um tilgang lífeyrissjóða

Í bréfi sínu til ráðherranna spyr Kristín H. Tryggvadóttir: „Til hvers erum við yfirleitt að borga í lífeyrissjóð, þar sem ríkið tekur allt til baka? Er þetta sanngjarnt? Er ríkið ekki að mismuna fólki stórlega? Það greiðir nefnilega allt fyrir þá sem hafa litlar tekjur eða engar og þeir sömu borga enga skatta, því ekki líka fyrir okkur sem borgum háa skatta?“

Helgi Jóhann Hauksson, verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð og sonur Kristínar, bendir á að 65 þúsund krónur dugi fólki skammt. „Hvers njóta eftirlaunaþegar fyrir skatta sína sem sjálfir greiða allan dvalarheimiliskostnað sinn auk hárra skatta?“ spyr hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert