Höftin ekki brot á EES-samningnum

Catherine Ashton, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.
Catherine Ashton, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur enga ástæðu til þess að hrófla við samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) þrátt fyrir gjaldeyrishöftin sem við lýði eru hér á landi. Þetta kemur fram í svari Catherine Ashton, utanríkismálastjóra sambandsins, til danska Evrópuþingmannsins Mortens Løkkegaard.

Ennfremur kemur fram að gjaldeyrishöftin séu í samræmi við EES-samninginn enda sé unnið að því að afnema þau. Þrátt fyrir að frjálst flæði fjármagns sé grundvallarfrelsi á innri markaði Evrópusambandsins sé heimilt að koma á höftum á milli sambandsins og EFTA/EES-ríkjanna í samræmi við 43. grein samningsins. Bent er á að EFTA-dómstóllinn hafi úrskurðað í á veru í desember 2011. Ísland hafi að ennfremur haft fullt samráð um framkvæmd haftanna við EFTA og sameiginlegu EES-nefndina í samræmi við 43., 44. og 45. grein EES-samningsins.

Fyrir vikið hafi framkvæmdastjórnin ekki gert neinar athugasemdir við gjaldeyrishöftin á Íslandi. Fram kemur að afnám haftanna sé flókin framkvæmd eins og fram komi í áætlun íslenskra stjórnvalda um afnám þeirra frá í mars 2011. Ekki liggi fyrir hvenær eða hvort mögulegt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Íslenskum stjórnvöldum hafi verið boðið að veita framkvæmdastjórninni reglulegar upplýsingar um þann árangur sem náðst hafi svo leggja megi betra mat á þörfina fyrir frekari höft. Loka takmarkið sé eftir sem áður að gjaldeyrishöftin verði smám saman afnumin.

Fram kemur í lok svarsins að „þar sem gjaldeyrishöftunum á Íslandi var komið á í samræmi við EES-samninginn og í ljósi yfirstandandi vinnu við að aflétta þeim eru engar forsendur fyrir því að endursemja um samninginn.“

Fyrirspurn Mortens Løkkegaard

Svar Catherine Ashton

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert