Samstíga um efnið en ekki formið

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar mbl.is/Rósa Braga

Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í dag um málefni Gaza og Úkraínu og sat utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, fundinn. Minnihluti nefndarinnar sendi frá sér bókun þar sem lýst var þungum áhyggjum vegna átakanna á Gaza og þess mikla mannfalls óbreyttra borgara, ekki síst barna, sem þau hafa valdið.

„Minni hlutinn tekur heils hugar undir þær áherslur sem fram koma í bréfi forsætisráðherra til Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael, og áréttar þau sjónarmið Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að upphaf og endir átakanna og mannfalls síðustu daga felist í ólögmætu hernámi Ísraelsstjórnar á Gaza og Vesturbakkanum, þar með talið Austur-Jerúsalem,“ segir í bókun minnihlutans.

Minnihlutann skipuðu þau Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG, Össur Skarphéðinsson, fulltrúi Samfylkingar og Guðmundur Steingrímsson fulltrúi Bjartrar framtíðar.

Hefðir gera ekki ráð fyrir bókunum og ályktunum

Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, segir efnislegan ágreining ekki vera meðal minni- og meirihluta nefndarinnar um málið, heldur geri hvorki þingsköp né hefðir ráð fyrir því að nefndir láti frá sér bókanir eða ályktanir um einstök mál. „Við teljum að nefndarmenn geti tjáð sjónarmið sín um þetta en þingið í heild er sá aðili sem ber að tjá afstöðu sína með þingsályktunum og þess vegna töldum við ekki rétt að álykta eða bóka sem nefnd,“ sagði hann í samtali við mbl.is. „Allir hljóta þó að fordæma árásir sem beinast gegn almennum borgurum og alþjóðastofnunum sem starfa á svæðinu.“

Í bókun minnihlutans segir að Alþingi hafi samþykkt þingsályktun um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu þann 29. nóvember 2011 og jafnframt skorað á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis. 

„Minnihluti utanríkismálanefndar Alþingis hvetur til þess að allra leiða verði leitað, bæði pólitískra, diplómatískra og efnahagslegra, til að stöðva blóðbaðið og þær hörmungar sem gengið hafa yfir palestínsku þjóðina. Rödd Íslands skiptir máli og henni ber áfram að beita í þágu friðar, mannréttinda, mannúðar og alþjóðalaga,“ segir í bókuninni.

Ræddu slit á stjórnmálasambandi

Birgir segir það hvort slíta eigi stjórnmálasambandi við Ísrael hafa komið til umræðu en engin krafa um það borin fram. Þá bendir hann á að hann hafi áður lýst því yfir að hann telji ekki rétt að fara þá leið þar sem betra væri að halda þeim boðleiðum opnum sem diplómatísk samskipti hafa í för með sér.

„Það er ákveðinn áferðarmunur á því hvernig menn tjá sig um þessi mál en engu að síður liggur ljóst fyrir að nefndarmenn eru samstíga í því að hvetja til þess að fundin verði friðsamleg lausn og vopnahléi komið á sem allra fyrst,“ sagði Birgir.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert