Ræða þak á laun stjórnenda

Fjalla á um kaup og kjör og sköpun verðmæta til …
Fjalla á um kaup og kjör og sköpun verðmæta til að ná fram jöfnuði, velferðarmál og loks vinnumarkaðsmál á þingi ASÍ sem hefst í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áform innan verkalýðshreyfingarinnar um að setja launakjörum stjórnenda í fyrirtækjum í eigu lífeyrissjóða ákveðnar skorður eða hámarksviðmið verða meðal helstu mála á 41. þingi Alþýðusambands Íslands, sem hefst í dag.

,,Hver eiga þau viðmið að vera? Eiga þau að vera almenn eða tölusett?“ segir m.a. í umræðuskjali miðstjórnar, sem lagt verður fyrir þingið. Búist er við miklum umræðum um málið en í ljós kemur á föstudag, á síðasta degi þingsins, hvort þingfulltrúar samþykkja að sett verði þak á launin og hver útfærsla þess verður.

Söguleg breyting lögð til með fjölgun varaforseta

Fjallað verður um þrjá málaflokka á þinginu í vinnuhópum í þremur málstofum og fer málefnavinnan fram með „þjóðfundarfyrirkomulagi“ til að tryggja möguleika sem flestra á virkri þátttöku. Fjalla á um kaup og kjör og sköpun verðmæta til að ná fram jöfnuði, velferðarmál og loks vinnumarkaðsmál.

Þá er búist við mikilli umræðu um tillögur sem lagðar verða fyrir þingið um breytingar á lögum Alþýðusambandsins. Eins og fram hefur komið er m.a. lagt til að varaforsetum ASÍ verði fjölgað í tvo, og stofnuð embætti fyrsta og annars varaforseta. Leggur uppstillingarnefnd til að Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags, og Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, verði varaforsetar. Þetta yrði þó alls ekki í fyrsta sinn í sögu ASÍ sem tveir varaforsetar starfa með forseta sambandsins en viðmælendur innan ASÍ fullyrða hins vegar að verði þessi tillaga samþykkt, sé hún söguleg og marki á vissan hátt pólitíska stefnubreytingu innan hreyfingarinnar.

Varaforsetaefnin tvö koma úr tveimur stærstu stéttarfélögunum innan ASÍ og hefur formaður VR aldrei áður gegnt starfi varaforseta í sögu hreyfingarinnar. Félagsmenn í stéttarfélögunum tveimur eru um 51 þúsund talsins, um 29 þúsund í VR og um 22 þúsund í Eflingu. Fulltrúar þeirra verða því fjölmennir á þingi ASÍ en alls eiga um 300 þingfulltrúar rétt til setu á þinginu, þar af eru fulltrúar VR 85 og 45 fulltrúar sitja þingið fyrir hönd Eflingar.

Ragnar Þór gegn Gylfa

Gylfi Arnbjörnsson gefur áfram kost á sér sem forseti ASÍ en kosningar forystu sambandsins fara fram undir lok þingsins. Ljóst er að Gylfi fær mótframboð á þinginu. Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, staðfesti í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Gylfa. Hann bauð sig fram gegn Gylfa á þinginu 2012 og hlaut Gylfi 69,8% atkvæða en Ragnar Þór 30,2%.

Ragnar Þór segir ástæður framboðsins fyrst og fremst tvíþættar, annars vegar óánægju hans með forystu verkalýðshreyfingarinnar í ASÍ og hins vegar til að félagarnir skilji hvernig forsetinn fari að því að þrásitja í embætti í óþökk alþýðunnar, sem hafi nánast ekkert að segja hver kemur fram fyrir hennar hönd.

Ragnar Þór segir einnig tillöguna um fjölgun varaforseta vera „ömurlega tilraun“ til að auka trú fólks á annars höfuðlausum her. Hann segir fáránlegt að ætla að vægi VR í forystu ASÍ aukist með kjöri Ólafíu B. Rafnsdóttur sem varaforseta ASÍ. Framboði hennar fylgi yfirlýstur og skýlaus stuðningur við núverandi forseta og vinnubrögðin sem svo margir séu ósáttir við. Segist Ragnar Þór hafa persónulega varað hana við því að setja sig í þessa skotlínu „en þau ætla að taka þennan slag með Gylfa og verða því að standa og falla með því. En þetta útspil forystunnar tryggir nægjanlegt bakland fyrir áframhaldandi setu Gylfa enda gengið úr skugga um slíkt áður en haldið er á svona þing“, segir Ragnar Þór.

Gert er ráð fyrir að kosningar forseta ASÍ, varaforseta og fulltrúa í miðstjórn fari fram fyrir hádegi á föstudaginn, á síðasta degi þingsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert