Deilt um viðmið launaþróunar

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson SteinarH

Nokkuð heitar umræður hafa skapast um ályktun um stöðu kjaramála á  41. þingi Alþýðusambands Íslands sem nú stendur yfir. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, lagði hart að þingfulltrúum að samþykkja harðorðari ályktun sem tæki á þróun sem næði lengra aftur í tíma.

Tillagan að ályktun hljóðaði á þá leið að þingið krefðist þess að atvinnurekendur leiðréttu þann mun á launaþróun sem hefði orðið til í kjarasamningum mismunandi hópa á liðnu ári. Sjaldan eða aldrei hefðu eins ólíkar launahækkanir komið út úr kjarasamningum og á þessu ári. Þess væri ennfremur krafist að stjórnvöld drægju til baka þær skerðingar á réttindum og kjörum launafólks sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu. Sæju viðsemjendur ASÍ og stjórnvöld ekki að sér væri ljóst að stefndi í erfiðar kjaraviðræður upp úr áramótum og átök á vinnumarkaði.

Vilhjálmur lagði hins vegar fram aðra tillögu sem var að mestu samhljóða tillögu nefndar um kjaramálin. Í stað þess að tala um síðustu kjarasamninga yrði talað um það óréttlæti og misskiptingu sem hefði viðgengist um alllanga hríð.

Hann sagðist óttast það orðalag að leiðrétta ætti muninn á launaþróun sem hefði átt sér stað undanfarið ár. Með því væri þingið að leggja línurnar um þær kröfur sem ætti að sækja fram með í kjarasamningum.

Hann benti hins vegar á að munurinn á launaþróun hefði átt sér stað yfir lengra tímabil og væri mun meiri en sá sem varð til í síðustu hrinu kjarasamninga ef litið væri aftur til ársins 2001. Hvatti Vilhjálmur þingfulltrúa eindregið til þess að gefa Samtökum atvinnulífsins ekki færi á að nota ályktun sem miðaði aðeins við þróun síðasta árs sem viðmið í komandi kjarasamningum.

„Það liggur við að ég fari á fjóra fætur fyrir ykkur að láta þessa grein ekki standa inni,“ sagði hann en lét þó ekki verða af því.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, lagði aftur á móti áherslu á að mikilvægt væri að þing ASÍ héldi á lofti gagnrýni á það sem gerðist í síðustu kjarasamningum. Hann tæki undir með Vilhjálmi að berjast ætti gegn óréttlæti og misskiptingu. Það væri hins vegar annars konar afstaða ef líta ætti svo á að þróunin síðasta árið væri í lagi.

Skýr skilaboð

Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, benti ennfremur á að hægt væri að túlka orðalag ályktunartillögunnar á þann hátt að þeir hópar sem hefðu samið um meiri hækkanir síðasta árið ættu ekki að fá neinar frekari hækkanir í næstu lotu kjarasamninga. Hann var þó ekki viss um að breytingartillaga Vilhjálms nægði sér til að bæta þar úr.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sagði ályktunina hins vegar gefa skýr skilaboð um að verkalýðshreyfingin væri tilbúin fyrir átök. Skilaboðin væru ennfremur þau að ná ætti upp mismuninum sem varð til í síðustu samningum áður en lengra væri haldi. Svo væri það sjálfstætt mál að gera frekari kröfur um leiðréttingu þegar kæmi að eiginlegri kröfugerð fyrir kjaraviðræður í vetur.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, lagði til málamiðlunar til að setning Vilhjálms yrði tekin inn í ályktunina en áfram yrði talað um að leiðrétta þróun undanfarins árs. Féllst Vilhjálmur á þá breytingu og dró breytingatillögu sína til baka.

Úr varð að tillaga nefndarinnar var samþykkt með þessum breytingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert