Enginn geðlæknir á Litla-Hrauni

Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi. mbl.is/Ómar

„Málefni geðsjúkra fanga er erfiður málaflokkur og trúlega einn sá erfiðasti sem við tökumst á við. Þetta eru viðkvæm mál sem við þurfum að leggja okkur fram við að leysa úr með þeim úrræðum sem við höfum. En það kostar fé og það kostar fyrirhöfn og breytingar á þeim aðstæðum sem við erum í núna að geta veitt þá úrlausn sem við þurfum. Og það þarf líka mjög sérhæfða þekkingu til og reynslu til þess að hjálpa þessu fólki.“

Þetta sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um málefni geðsjúkra fanga. Frummælandi var Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar. Lagði hann áherslu á að koma þyrfti geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu að Litla-Hrauni í það horf að ekki væri vafi á því að fangar sem þyrftu á slíkri umönnun að halda sem þeir ættu rétt á og vísaði til skýrslu umboðsmanns Alþingis frá 2013. Þá hefði ítrekað verið bent á bága stöðu geðsjúkra fanga hér á landi af pyntinganefnd Evrópuráðsins en ekkert verið gert í því.

Ólöf sagði stöðu geðheilbrigðismála á Litla-Hrauni vera þá væri enginn geðlæknir starfandi þar. Erfiðlega hafi gengið að fá geðlækni til starfa þar. Þessum málum væri tekið alvarlega í innanríkisráðuneytinu og væru þar til skoðunar. Verið væri að setja aukinn kraft í þá vinnu. Þessi mál hefðu tekið of langan tíma til þessa en engu að síður hafi verið haft auga á þeim. Hins vegar væri grunnheilbrigðisþjónusta í fangelsum talin í góðum málum. Það sama væri ekki hægt að segja um geðheilbrigðisþjónustu en á því þyrfti að finna lausn.

Til greina kæmi að vista geðsjúka fanga í nýja fangelsinu á Hólmsheiði en einnig hafi verið rætt um að útbúa sérstaka aðstöðu fyrir þá í gæsluvarðshaldsálmu Litla-Hrauns, þar yrði sérstök sjúkradeild þegar nýja fangelsið hefði verið tekið í notkun. Endanleg ákvörðun hefði þó ekki verið tekin í þeim efnum.

Róbert Marshall alþingismaður.
Róbert Marshall alþingismaður. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert