Leita að húsnæði fyrir hælisleitendur

Húsnæðið þarf meðal annars að vera nálægt almenningssamgöngum.
Húsnæðið þarf meðal annars að vera nálægt almenningssamgöngum. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkiskaup hafa óskað eftir húsnæði til leigu fyrir Útlendingastofnun en húsnæðið er hugsað fyrir vistarverur hælisleitenda. Miðað er við að leigutímabilið verði tólf mánuðir með möguleika á framlengingu.

Ýmsar kröfur eru gerðar til húsnæðisins, til að mynda þarf húsnæðið að vera á höfuðborgarsvæðinu, í göngufæri við matvöruverslun og nálægt almenningssamgöngum. Krafist er snyrtilegs umhverfis og skal vera vel frá öllu gengið á lóð. Þá skal aðgengi vera gott og henta fötluðum.

Húsnæðið skal hafa 25-30 herbergi sem hvert skal hafa litla eldhúsinnréttingu með vaski og helluborði. Í hverju herbergi á einnig að vera ísskapur, gardínur, fataskápur, rúm, borð og stólar svo dæmi séu nefnd. Húsnæðið skal hafa að geyma sjö salerni og sjö sturtur, handlaugar og vatnssalerni skulu vera úr hvítu, brenndu postulíni og þess er jafnframt krafist að þau séu samstæð. Talið er æskilegt að salerni séu vegghengd.

Þess er óskað að í húsnæðinu sé sameiginleg setustofa, borðstofuborð með stólum, sjónvarp, þvottaherbergi og geymslurými. Þá skal húsnæðið uppfylla kröfur sem gerðar eru til opinberra bygginga og skal afhendast fullbúið en gerðar eru margvíslegar kröfur til lagna og kerfa.

Gísli Þór Gíslason, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum, vill ekki gefa upp hvort tilboð séu komin frá mögulegum leigusölum. Segir hann algengast að tilboð komi í lok frests en nokkrir hafi þó haft samband með fyrirspurnir. Við mat á hagkvæmni tilboða verður tekið tillit til leiguverðs, stærðar húsnæðis, skipulagi þess, afhendingartíma, staðsetningar og aðkomu.

Lesa má frekar um þær lágmarkskröfur sem gerð er til húsnæðisins á vefsíðu Ríkiskaupa en þar er einnig að finna upplýsingar um gerð tilboða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert