Lítið lát á ofanhríðinni

Veturinn er ekki tilbúinn til að kveðja.
Veturinn er ekki tilbúinn til að kveðja. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lítið lát er á ofanhríðinni með skafrenningskófi norðanlands í dag, ekki síst í Eyjafirði og þar austur af. Austanlands skánar veðrið upp úr miðjum degi, það rofar til, dregur heldur úr vindi og hlánar á láglendi. Áfram verða snarpar vindhviður, 35-45 m/s suðaustanlands í allan dag og fylgir staðbundið sandfok á þeim slóðum. Skafrenningur og él verður enn um sinn norðvestantil á landinu og þá bætir heldur í vind suðvestanlands með hviðum um 35 m/s á Kjalarnesi, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Veðurvefur mbl.is.

Vegir eru greiðfærir að heita má um allt sunnanvert landið. Hálkublettir og éljagangur er á Hellisheiði og mjög hvasst er á Kjalarnesi og á Mosfellsheiði.

Á Vesturlandi eru flestir vegir greiðfærir en eitthvað er um hálkubletti. Ófært er á Bröttubrekku og hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði og í Svínadal.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Ófært er í Árneshreppi sem og á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði.

Það er víða hálka, snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar og á Hólasandi og hálka og stórhríð er á Sandvíkurheiði. Ófært er á Hófaskarði.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum og sumstaðar stórhríð. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Fjarðarheiði og ófært er á Vatnsskarði eystra en þæfingur á Oddsskarði. Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar.

Mikið hvassviðri er í Hamarsfirði og sandfok á Suðausturlandi en vegir greiðfærir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert