Vetrarveður á sumri

Það er fátt sem minnir á sumar á þessum ágæta …
Það er fátt sem minnir á sumar á þessum ágæta mánudagsmorgni mbl.is/Rax

Varað er við stormi, 15-23 metrum á sekúndu austan Öræfa og á sunnanverðum Austfjörðum fram á kvöld. Í Hamarsfirði fer vindur í yfir 50 metra á sekúndu í hviðum og víða á Austur- og Suðausturlandi er bálhvasst. 

Í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að búast má við vetrarfærð og erfiðum akstursskilyrðum víða á norðan og austanverðu landinu til morguns, en þá er útlit fyrir að fari að draga úr vindi og ofankomu. Búast má við snörpum vindhviðum undir Vatnajökli.

Norðan og norðvestan 10-18 m/s, en 15-23 SA-til, austan Öræfa. Snjókoma og skafrenningur N- og A-lands, en annars skýjað með köflum. Frost víða 1 til 6 stig, en frostlaust syðst og austast að deginum.

Frá Vegagerðinni:

Áfram verður skafrenningur og éljagangur á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi, og ofanhríðin eykst eftir því sem austar dregur. Austanlands hvessir enn frekar í kvöld og spáð er 20-25 m/s á Austfjörðum. Blindbylur þar til allt til morguns. Suðaustanlands er reiknað með hviðum 35-45 m/s, og sandfoki einkum austan Hafnar. Á Skeiðarársandi og Mýrdalssandi má gera ráð fyrir sandfoki sem heldur ágerist til morguns.

Færð og aðstæður

Vegir eru greiðfærir að heita má um allt sunnanvert landið. Hálkublettir og éljagangur er á Hellisheiði.

Á Vesturlandi eru flestir vegir greiðfærir en ófært er á Bröttubrekku og hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði og í Svínadal en hálkublettir eru á Fróðárheiði og Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Þæfingur og skafrenningur er á Þröskuldum. Ófært er í Árneshrepp sem og á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði.

Það er víða hálka, snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi og mokstur stendur yfir á flest öllum aðalleiðum.  Þæfingsfærð og skafrenningur er á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar. Þungfært er á Hólasandi og hálka og stórhríð er á Sandvíkurheiði. Ófært er á Hófaskarði.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum og sumstaðar stórhríð. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Fjarðarheiði og ófært er á Vatnsskarði eystra en þæfingur og skafrenningur á Fagradal og Oddsskarði. Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar.

Mikið hvassviðri er í Hamarsfirði og sandfok á Suðausturlandi en vegir greiðfærir.

Veðurspá fyrir næstu daga:

Á þriðjudag:
Norðan og norðaustan 13-18 m/s og snjókoma eða éljagangur N- og A-lands, en annars bjartviðri. Dregur úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Frost víða 0 til 8 stig, en frostlaust S-lands að deginum.

Á miðvikudag:
Norðaustan 8-13 m/s og skýjað með köflum. Lítilsháttar slydduél syðst, en él með N- og A-ströndinni. Frost 0 til 5 stig en hiti 0 til 5 stig SV-til yfir daginn.

Á fimmtudag og föstudag:
Austlæga eða breytileg átt og dálítil él víða á landinu, síst þó NA-til. Áfram svalt í veðri.

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir allhvass austanátt með ofankomu SV-til, en annars úrkomulítið. Fremur svalt veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert