Marokkóbúi mættur í íslenskan sauðburð

Hann hefur haft mikinn áhuga á Íslandi í nokkur ár og lét loks verða af því að koma hingað núna í kalda vorinu. Hann ætlar að starfa sem sjálfboðaliði á þremur ólíkum stöðum, í sauðburði fyrir norðan, á tónlistarhátíð í höfuðborginni og á hosteli vestur á fjörðum. Þannig kýs hann að kynnast fólki í nýju landi.

Þetta er fyrsta ferð mín hingað til lands en sannarlega ekki sú síðasta. Fyrir nokkrum árum fékk ég gríðarlegan áhuga á þessu litla landi hér í norðri og las mér til um það. En ég uppgötvaði landið í gegnum íslenska tónlist. Ég er heillaður af nokkrum íslenskum hljómsveitum eins og til dæmis Múm, Sigur Rós, Sóleyju, Amina og fleirum. Ég er hrifinn af tónlist þessa tónlistarfólks og mig langaði að vita hvaðan þau fengu innblástur í sinni tónlistarsköpun, ég vildi vita meira um landið þar sem þau eru alin upp, því umhverfið hefur alltaf áhrif á það sem fólk er að gera. Þess vegna er ég kominn hingað,“ segir Ismail El Ghorba Youssef sem er ófeiminn að viðurkenna að hann sé ekki hrifinn af tónlist Bjarkar, þó að flestir útlendingar sem hann hitti séu það.

Leiddist og langaði til að sjá meira af heiminum

Ismail lenti á Íslandinu kalda í lok apríl og hafði aðeins verið í rúma viku á landinu þegar blaðamaður mælti sér mót við hann á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Hann kemur langt að, er búsettur um þessar mundir í Vancouver í Kanada, en er fæddur og uppalinn í Casablanca í Marokkó í henni Afríku.

„Ég fæddist reyndar í Montreal í Kanada, því foreldrar mínir voru innflytjendur þar og höfðu búið þar í tíu ár og starfað sem kennarar. Hálfu ári eftir að ég fæddist fluttu þau aftur til Marokkó og þar ólst ég upp. En eftir að ég varð fullorðinn leiddist mér svolítið heima í Marokkó og mig langaði að sjá meira af heiminum. Fyrir tveimur árum, þegar ég var tuttugu og tveggja ára, fór ég því í háskólanám til Montreal og bjó þar í eitt ár, en systir mín býr líka þar. Eftir það flutti ég mig yfir til Vancouver og hef starfað þar síðan,“ segir Ismail.

Leið eins og hann væri staddur við helgidóm

Fyrst eftir að Ismail kom til Íslands dvaldi hann í þrjá daga í höfuðborginni og það sem vakt athygli hans var að snemma á morgnana er þar enginn á ferli nema ferðamenn. „Íslendingar fara líka afskaplega seint út á lífið, ég var hér um helgina og enginn mætti á skemmtistaðina fyrr en eftir klukkan eitt,“ segir hann og hlær. Hann skellti sér síðan með nokkrum öðrum ferðamönnum hinn Gullna hring og einnig fór hann í nokkurra daga ferð til Víkur í Mýrdal.

„Það var sérlega fallegt að aka meðfram suðurströnd Íslands, ég var heillaður af fossunum, sérstaklega Skógafossi, hann var kraftmikill og vakti hjá mér sérstakar tilfinningar. Mér leið eins og ég væri staddur við helgidóm. Við fórum líka í náttúrulaug og að lokum í fjallgöngu á Eyjafjallajökul, en við þurftum reyndar að snúa við vegna veðurs, en það var samt mögnuð upplifun.“

Hlakkar til að upplifa hversdagslíf með heimamönnum

Ismail ætlar að dvelja á Íslandi allt til júlíloka og hann mun starfa sem sjálfboðaliði á þremur stöðum.

„Ég skráði mig sem sjálfboðaliða hjá samtökum sem heita Workaway, og ég er mjög spenntur fyrir þessu, af því ég veit að maður kynnist heimafólki betur þegar maður býr með því. Ég verð fyrst í tvær vikur á bóndabæ á Norðurlandi, hjá Eydísi Magnúsdóttur og Rúnari Gunnarssyni á bænum Sölvanesi í Skagafirði. Þar mun ég hjálpa til í sauðburði sem og við ferðaþjónustuna sem þau reka. Síðan fer ég aftur til Reykjavíkur og dvel þá tvær vikur í borginni og verð svo heppinn að vera staddur þar á þjóðhátíðardaginn 17. júní, það verður gaman að upplifa hátíðarhöldin. En síðan mun ég starfa sem sjálfboðaliði við tónlistarhátíðina Secret Solstice í Reykjavík, en eftir það fer ég til Patreksfjarðar, til að vinna sem sjálfboðaliði á hostelinu Ráðagerði, hjá Öldu Davíðsdóttur. Ég hlakka til að upplifa hversdagslíf með heimamönnum á Íslandi.“

Íslensk miðnætursól og ferðalag inn á við

Ismail finnst íslenskan spennandi og framandi tungumál og hann ætlar að gera sitt besta til að læra svolítið í íslensku meðan hann dvelur hér. Honum finnst ekkert mál þó það sé kalt hér á landi, hann er vanur kulda í Kanada.

„En ég hlakka mjög til að vera hér þegar sumarnæturnar eru bjartar í júní, þegar aldrei kemur nótt. Ég hlakka til að sjá miðnætursólina fyrir norðan. Ég valdi að koma til Íslands af því að mig langaði til að eiga tíma með sjálfum mér, því ég er á þeim stað í lífi mínu að mig langar að gera breytingar og það er gott að vera í næði með sjálfum sér til að taka erfiðar ákvarðanir. Þessi Íslandsferð verður því ekki síður ferðalag inn á við fyrir mig, en ég held að Ísland sé einmitt kjörinn staður fyrir slíkt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert